Mánaberg ÓF 42 á toginu

1270. Mánaberg ÓF 42 ex Merkúr RE 800. Ljósmynd Þór Jónsson.

Skuttogarinn Mánaberg ÓF 42 var einn stóru Spánartogaranna sem smíðaðir voru fyrir Íslendinga á Spáni árið 1973-1975.

Þeir voru smíðaðir í Astilleros Luzuriaga S.A. skipa­smíðastöðinni í Pasaj­es de San Juan skammt frá San Sebastian á Norður-Spáni.

Mánabergið hét upphaflega Bjarni Benediktsson RE 210, síðar Merkúr RE 800 en Sæberg hf. keypti það til Ólafsfjarðar árið 1987.

Svo sagði frá komu Mánabergsins í dagblaðinu Degi 7. apríl 1987:

Nýtt skip bættist við flota Ólafsfjarðar sl. laugardag er Mánaberg ÓF 42 sem áður hét Bjarni Benediktsson lagði að bryggju hér í Ólafsfirði. Það birti yfir fólki þegar þetta myndarlega skip sigldi hér inn á höfnina í fegursta veðri, logni og sólskini, eftir hið mikla óveður sem var þá um garð gengið. Við hafnargarðinn hafði safnast saman mikill mannfjöldi til að fagna komu skipsins.

Sóknarpresturinn í Ólafsfirði, séra Svavar Alfreð Jónsson, flutti blessunarorð. Bæjarstjórinn Valtýr Sigurbjarnarson bauð skip og skipshöfn velkomna. Kirkjukór Ólafsfjarðar undir stjórn Soffíu Eggertsdóttur söng og stjórnarformaður Sæbergs hf. sem er eigandi skipsins þakkaði hlýjar móttökur og bauð öllum viðstöddum að skoða skipið og þiggja síðan veitingar í félagsheimilinu Tjarnarborg. Þar flutti Aðalheiður Karlsdóttir frumort kvæði í tilefni komu skipsins.

Skipið hefur verið endurnýjað út í Noregi og var því þar breytt í frystitogara og er allur frágangur mjög vandaður. Framkvæmdastjóri Sæbergs hf. sem á fyrir togarann Sólberg er Gunnar Sigvaldason.

Mánaberg ÓF 42 var selt árið 2017 til Murmansk í Rússlandi og sigldi af stað áleiðis þangað 17. mars það ár. Rammi hf. fékk nýjan frystitogara, Sólberg ÓF 1, í maí það ár og leysti hann Mánabergið og Sigurbjörgu ÓF 1 af hólmi en hún var seld til Noregs.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.

Örfirisey RE 14 í skemmtisiglingu á Skjálfanda

1030. Örfirisey RE 14. Ljósmynd Hreiðar Olgeirsson 1967.

Örfirirsey RE 14 er hér á siglingu með Húsvíkinga á sjómannadaginn 1967 að ég held en skipið kom til landsins í febrúar það ár.

Í Morgunblaðinu sagði frá komu Örfiriseyjar RE 14 þann 10 febrúar í skeyti frá fréttaritara blaðsins 9. febrúar:

Nýtt skip m.s. Örfirisey RE 14 kom til Húsavíkur í morgun. Skipið tekur fyrst land í Húsavík, sökum þess að skipstjórinn og nokkuð af skipshöfninni eru Húsvíkingar. 

Skipið er smíðað í Deest í Hollandi, annað af fimm skipum, sem smíðað er eftir sömu teikningu Hjálmars Bárðarsonar. Stærð skipsins er 310 lestir og aðalaflvél Listerdísil. Ganghraði á heimleið var 11 mílur.

Örfirisey er búin öllum nýjustu tækjum. Hún hreppti slæmt veður á heimleið, en reyndist í alla staði vel.

Eigandi er Hraðfrystistöðin í Reykjavík, Einar Sigurðsson. Skipstjóri er Kristbjörn Árnasonog 1. stýrimaður Björn Halldórsson. Fyrsti vélstjóri er Magnús Hagalínsson.

Héðan fer skipið á morgun og mun hefja loðnuveiðar fyrir Suðurlandi.    

Síðar átti skipið eftir að heita Rauðsey AK 14, Björg Jónsdóttir ÞH 321, Arnþór EA 16, Goðatindur SU 57 og loks Páll Jónsson GK 7 sem það ber í dag.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.

Fjölnir ÍS 7

1135. Fjölnir ÍS 7 ex Fjölnir GK 7. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2004.

Línubáturinn Fjölnir ÍS 7 fer hér frá bryggju á Húsavík eftir löndun í nóvembermánði árið 2004.

Smíðaður í Stálvík í Garðarbæ 1971 og hét upphaflega Þórunn Sveinsdóttir VE 401.

Vinnslustöðin kaupir bátinn árið 1992 þegar ný Þórunn Sveinsdóttir VE 401 leysti hann af hólmi. Þá hafði tognað dálítið á bátnum og hann yfirbyggður með nýrri brú.

Báturinn fékk nafnið Kristbjörg og var VE 70. Árið 1997 fær hann nafnið Fjölnir eftir að Vísir hf. í Grindavík hóf að gera hann út. Hann var GK 257 sem átti eftir að breytast í GK 7 og ÍS 7 . Árið 2005 er hann Fjölnir II GK 219 um tíma áður en hann er seldur til Þorlákshafnar þar sem hann fékk nafnið Arnarberg ÁR 150.

Báturinn var afskráður 19. febrúar 2014 og fór í brotajárn.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.

Baltic Forward við Straumsvík

Baltic Forward við akkeri utan við Straumsvík.

Baltic Forward lá fyrir akkeri utan við Straumsvík í gær þegar Jón Steinar átti leið fram hjá og tók þessar myndir.

Skipið skráð undir kýpversku flaggi með heimahöfn í Limasol.

Það var smíðað 1988 hjá Stocznia Gdanska S.A. í Gdansk. Það er 140 metarar að lengd og 20 metra breitt.

Baltic Forward. Ljósmynd Jón Steinar 2019.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution