Skipanes SH 608

57. Skipanes SH 608 ex Framnes ÍS 608. Ljósmynd Hreiðar Olgeirsson .

Skipanes SH 608 er hér að draga netin á Breiðafirði á vetrarvertíð um árið.

Upphaflega Framnes ÍS 608 frá Þingeyri, smíðaður í Noregi 1963, nánar tiltekið í Vaagland Baatbyggeri. Framnes var í eigu Kaupfélags Dýrfirðinga og kom til heimahafnar á Þingeyri 16. júní 1963.

Báturinn var 165 brl. að stærð og dagblaðið Tíminn segir hann hafa verið 96,15 fet á lengd og 22 fet á breidd. Aðalvélin var 495 hestafla Lister. Seinna var báturinn endurmældur og var þá 137 brl. að stærð.

Framnes ÍS 608 var gert út frá Þingeyri í 30 ár en það var selt til Grundarfjarðar þegar Þingeyringar fengu Sléttanesið nýsmíðað árið 1983 frá Slippstöðinni á Akureyri.

Á Grundarfirði fékk báturinn nafnið Skipanes SH 608 og var gert út þaðan til ársins 1988. Um sumarið það ár voru höfð bátaskipti við Hópsnes hf. í Grindavík sem fékk Skipanesið og Grundfirðingarnir fengu Hópsnes GK 77 sem smíðað var í Garðabæ og nefndu Skipanes SH 608.

Í Grindavík var báturinn gerður út um tíma en síðan var úreldingarréttur hans nýttur þegar nýsmíðað Hópsnes GK 77 kom til landsins frá Póllandi í mars 1990.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.