Ásgeir RE 60 í Reykjavíkurhöfn sumarið 1974

1026. Ásgeir RE 60. Ljósmynd Leifur Hákonarson 1974.

Ásgeir RE 60 liggur hér við bryggju í Reykjavík sumarið 1974 en þá klár til síldveiða í Norðursjó. Myndina tók Leifur Hákonarson.

Ásgeir RE 60 var smíðaður fyrir Ísbjörninn h/f í Deest í Hollandi árið 1966.

Í Morgunblaðinu 24. desember það ár sagði svo frá komu Ásgeirs RE 60 til heimahafnar í Reykjavík:

Nýtt glæsilegt fiskiskip bættist við fiskveiðiflota landsmanna í gær. Þá kom hingað til Reykjavíkur vélskipið Ásgeir RE 60, sem er eign Ísbjarnarins h.f. og jafnframt stærsta skip fyrirtækisins. 

Ásgeir, sem er búinn hvers konar tækjum til siglinga og veiða, er 315 tonna skip. Hann ber í lest um 300 tonn af síld. Lestin er kæld og frá sérstökum ísklefa er útbúnaður til að blása ísnum yfir fisk eða síldarfarm.

Ásgeir sem er annar báturinn með því nafni sem Ísbjörninn eignast, er í alla staði hið glæsilegasta og traustasta skip. Er hann byggður í skipasmíðastöðinni N. V. Scheepswerf Gebr. van der Werf í bænum Deest.

Þar er systurskip Ásgeirs nú í smíðum einnig fyrir Ísbjörninn og var báturinn skírður um daginn og gefið nafnið Ásberg.

Ásgeir fer á síldveiðar eystra strax eftir hátíðar. Skipstjóri skipsins er Halldór Benediktsson, er áður var með Ísbjarnarbátinn Ásbjörn. Sem kunnugt er er framkvæmdastjóri Ísbjarnarins hinn kunni útgerðarmaður Ingvar Vilhjálmsson.

Ásgeir RE 60 var seldur til Noregs árið 1977 þegar Ísbjörninn h/f fór út í togaraútgerð. Eins var um Ásberg RE 22 en frá Noregi voru bátarnir seldir til Chile.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Freyja II ÍS 401 við bryggju á Súgandafirði

525. Freyja II ÍS 401. Ljósmynd Sigurður Jóhannesson.

Freyja II ÍS 401 er hér við bryggju á Suðureyri við Súgandafjörð upp úr 1960. Hvaða bátur er utan á honum hef ég ekki upplýsingar um.

Freyja II ÍS 401 var smíðuð 1954 í Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar hf. á Ísafirði fyrir Fiskiðjuna Freyju hf. Suðureyri Súgandafirði.

Báturinn var 39 brl. að stærð búinn 22o hestafla GM aðalvél. Fiskiðjan Freyja átti hann til ársins 1963 þegar Freyja II var seld til Vestmannaeyjar þar sem hún var þangað til yfir lauk.

Í Eyjum fékk báturinn nafnið Hafliði VE 13 sem hann bar til ársins 1988 er hann varð Sigurbára VE 249. Ári síðar Sigurbára II VE 249 en báturinn var tekin af skipaskrá 22. mars 1991.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Jumbo Jubilee kominn með skrokkana til Brattvåg

Jumbo Jubilee við bryggju í Brattvåg. Ljósmynd Gjögur hf. 2019.

Flutningaskipið Jumbo Jubilee kom til hafnar í Brattvåg í Noregi í gærmorgun með skrokkana fjóra sem smíðaðir voru í Víetnam fyrir íslenskar útgerðir.

Skipið flutti Vörð ÞH 44, Áskel ÞH 48, Steinunni SF 10 og Þinganes SF 25 þessa löngu leið en siglingin hófst þan 31. mars sl.

Þessi skip eru hluti af sjö skipa raðsmíðaverk­efni sem ís­lensk út­gerðarfyr­ir­tæki sömdu um við Vard, sem rek­ur m.a. skipa­smíðastöðvar í Nor­egi, Rúm­en­íu og Bras­il­íu, auk Víet­nams.

Jumbo Jubilee við bryggju í Brattvåg. Ljósmynd Gjögur 2019.

Meðfylgandi myndir er fengnar af Fésbókarsíðu Gjögurs hf. og birtar með leyfi frá fyrirtækinu.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Björgúlfur og Akurey

2892. Björgúlfur EA 312 kemur til hafnar í Hafnarfirði í gær. Ljósmynd Óskar Franz.

Hér birtast myndir af tveim skuttogurum sem smíðaðir voru í Tyrklandi fyrir íslendinga en þó ekki í sömu stöðinni. Óskar Franz tók myndirnar i gær, 1. maí.

Björgúlfur EA 312 var smíðaður fyrir Samherja hf. í Cem­re-skipa­smíðastöðinni í Istanbúl í Tyrklandi. Björgúlfur er 62,49 metrar að lengd og 13,5 metra breiður. Hann kom til heimahafnar á Dalvík í fyrsta skipti þann 1. júní 2017.

2890. Akurey AK 10 kemur til hafnar í Reykjavík í gær. Ljósmynd Óskar Franz.

Akurey AK 10 var smíðuð fyrir HB Granda hf. í  Celiktrans Shipyard í Istanbúl í Tyrklandi og kom til heimhafnar á Akranesi 21. júní 2017. Hún er 54,75 metrar að lengd og 13,5 metra breið.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution