
Hér kemur gömul mynd af Súlunni EA 300 prýdda jólaljósum í höfn á Akureyri. Og gott ef þetta er ekki Margrét EA 710 sem liggur innan við hana.
Úr 11. tbl. Ægis árið 1996 en það ár kom Súlan úr breytingum í Póllandi:
Skipið er smíðað hjá Ankerlökken Verft Glomn Fredrikstad í Noregi og hefur smíðanúmer 167 hjá stöðinni. Skipið var afhent í desember árið 1967 og er syst- urskip Súlunnar Hilmir SU 100 (1059), sem síðar varð Hákon ÞH 250. Það skip var smíðað hjá Ankerlökken Verft Florö. Hákon ÞH var seldur úr landi í nóvember árið 1987.
Skipið hefur borið sama nafn frá upphafi, Súlan EA 300, og var fyrst í eigu Leós Sigurðssonar en síðan eignaðist fyrirtækið Súlur h.f. skipið. í dag er Súlan e.h.f. eigandi að skipinu en eigendur þess félags eru Sverrir Leósson og Bjarni Bjarnason.
Breytingar hafa áður verið gerðar á skipinu. Fyrst ber að nefna lengingu um 5 metra í júní 1974, byggt var yfir þilfar skipsins í janúar 1975 og í byrjun árs 1978 var skipt um aðalvél. Þá var sett ný Wichmann 1324/1800 KW/hö og fór Lister Blackstone 736/1000 KW/hö úr skipinu. Þá voru settar hliðarskrúfur í skipið. Árið 1984 var útbúin skutrenna og komið fyrir grandaravindum og öðrum búnaði fyrir skuttogveiðar.
Skipið fór fyrst á hefðbundnar togveiðar með fiskitroll en síðan hefur það stundað veiðar á síld og loðnu í hringnót. Einnig hefur skipið stundað rækjuveiðar í rækjutroll og aflinn verið ísaður um borð.
Helstu breytingar sem gerðar voru 1992 í smíðastöðinni Nauta í Gdynia:
Súlan var lengd um 6 metra, 12 bandabil, 500 mm hvert, og smíðaðir geymar fyrir brennsluolíu í botni lengda hlutans. Smíðuð voru langskipsþil (loðnuþil) í undirlest í samræmi við þau sem fyrir eru og á milliþilfari voru smíðuð ný langskipsþil. Útsíður lesta og lestarloft eru einangraðar og klæddar. Smíðaður var nýr hvalbakur úr áli, með legufæra- og landfestibúnaði ásamt nýju frammastri (ljósamastri). Nýtt þilfarshús með íbúðum og stýrishús úr áli og nýtt ratsjár- og ljósamastur ofan á nýju stýrishúsi.
Síldarvinnslan á Neskaupsstað keypti Súluna árið 2007 og þrem árum síðar fór hún utan í brotajárn.
Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution.
