
Hér er Jörvi ÞH 300 að láta úr höfn á Húsavík í línuróður.
Jörvi ÞH 300 var smíðaður á Skagaströnd fyrir þá feðga Þórarinn Vigfússon og Hinrik Þórarinsson. Félag þeirra hét Hagbarður hf. og fengu þeir bátinn, sem var 30 brl. að stærð, afhentan á vormánuðum 1973.
Í Morgunblaðinu 5. júní 1973 sagði svo frá:
Nýlega bættist í bátaflota Húsavíkur nýr bátur, Jörvi ÞH 300. Báturinn er 30 lestir að stærð, búinn öllum venjulegum siglingar- og leitartækjum, smíðaður í Skipasmíðastöð Guðmundar Lárussonar á Skagaströnd. Eigandi bátsins er Hagbarður hf. Skipstjóri er Hinrik Þórarinsson og vélstjóri Þórarinn Höskuldsson. Báturinn hefur þegar hafið veiðar.
Jörva gerðu þeir feðgar út fram á mitt ár 1977 er þeir selja hann vestur á Ísafjörð.
Kaupendur voru Kristinn Haraldsson og Ólafur Guðmundsson og nefndu þeir bátinn Ragnar Ben ÍS 210. Eigendaskipti verða á bátnum 1980 en þá eru skráðir eigendur Kristinn Haraldsson og Ragnar Á. Kristinsson.
Í nóvember 1983 strandar báturinn á skeri við Brimnes,rétt vestan Hellisands, og sökk á svipstundu. Fjögurra manna áhöfn bátsins komst við illan leik upp á skerið og var síðan bjargað heilum á húfi til lands. Þessar upplýsingar eru m.a. fengnar úr bókinni Íslensk skip.
Þegar báturinn strandaði var hann í eigu Ásgeirs Þórðarsonar í Keflavík en var að róa frá Ólafsvík.
Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution