
þó nokkrir smábátar eru gerðir út frá Vestmannaeyjum um þessar mundir og á þessum myndum er línubáturinn Þorsteinn VE 18 að koma að landi í gær.

Það er Útgerðarfélagið Stafnnes ehf. sem stendur að útgerð bátsins en eins og ljósmyndarinn orðaði það er eigandi hörkuduglegur peyi um tvítugt sem á hann.
Þorsteinn VE 18 var smíðaður árið 1992 og er af gerðinni Gáski 800, en lengdur yfir flotkassan síðar.
Hann hét Forkur ÁR 400 í upphafi árs 1995 og spurning hvort það hafi verið hans fyrsta nafn. Síðan Fiskines SU 65 í febrúar 1995, Jón Eggert ÍS 32 í október 1998.
Vorið 2002 var Jón Eggert ÍS 32 keyptur til Húsavíkur þar sem hann fékk nafnið Skýjaborgin ÞH 118. Kaupandi samnefnt félag í eigu Júlíusar Bessasonar og Sölva heitins Jónssonar.
Í nóvember árið 2006 er Skýjaborgin orðin RE 118 og á árinu 2007 er hún seld austur á Neskaupstað þar sem báturinn fékk nafnið Hafþór NK 44. SU 144 varð hann 2010 en árið 2011 kaupir Æðarsker ehf. á Kópaskeri bátinn og nefnir Margréti ÞH 55.
Það var svo haustið 2016 sem báturinn var seldur til Vestmannaeyja og fékk núverandi nafn.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.
By clicking on the images you can wiew them in higher resolution