
Þessa mynd af Bjarna Ólafssyni AK 70 tók Hreiðar Olgeirsson skipstjóri á Kristbjörgu ÞH 44 haustið 1982 eða 1983. Þá stundaði Kristbjörg síldveiðar með lagnet og landaði m.a á Vopnafirði.
Um Bjarna Ólafsson AK 70 sagði m.a í 4. tbl. Ægis árið 1978:
9. janúar s.l. bættist nýtt nótaveiðiskip við flota landsmanna, m/s Bjarni Ólafsson AK 70, sem þá kom til heimahafnar sinnar, Akraness, í fyrsta sinn.
Skip þetta er smíðanúmer 135 hjá Fartygsentreprenander AB í Uddevalla í Svíþjóð, sem sá um smíðina. Smíði skipsins var hins vegar með þeim hætti að smíði á skipsskrokk og yfirbyggingu fór fram í Svíþjóð hjá Karlstadverken, en síðan var skipið dregið til Danmerkur þar sem smíðinni var lokið, þ.e. smíði innréttinga, niðursetning á véla- og tækjabúnaði og annar frágangur.
Það var skipasmíðastöðin 0rskovs Staalskibs- værft í Frederikshavn, sem annaðist þennan verkþátt, sem ber númer 103 hjá stöðinni.
Bjarni Ólafsson AK er stærsta nótaveiðiskip sem byggt hefur verið fyrir íslendinga, og innan skamms er væntanlegt til landsins annað skip af sömu gerð. Eigandi Bjarna Ólafssonar er Runólfur Hallfreðsson og er hann jafnframt skipstjóri á skipinu, en 1. vélstjóri er Þráinn Sigurðsson.
Bjarni Ólafsson AK 70 var 53,78 metrar á lengd og 9,50 metra á breidd og mældist 556 brúttórúmlestir eða 729 brúttótonn.
Þegar nýr Bjarni Ólafsson AK 70 kom til landsins árið 1997 keypti Skálar hf. á Þórshöfn þann gamla og nefndi Neptúnus ÞH 361.
Gjögur hf. keypti Neptúnus ÞH 361 haustið 2003 með einhverjum aflaheimildum og í kjölfarið var skipið selt erlendis í brotajárn.
Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.