Eldborg HF 13

1525. Eldborg HF 13. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Eldborg HF 13 siglir hér til hafnar á Eskifirði haustið 1984, eða 1986, og myndin var tekin úr síldveiðibátnum Geira Péturs ÞH 344.

Eldborg HF 13 var smíðuð fyrir samnefnda útgerð árið 1978 og kom til heimahafnar í Hafnarfirði 30. desember það ár.

Skipið var smíðanúmer 136 hjá Fartygsentreprenader AB í Uddevalla í Svíþjóð, sem sá um smíðina. Smíði skipsins var hins vegar með þeim hœtti að smíði á skipsskrokk og yfirbyggingu fór fram í Svíþjóð hjá Karlstadverken.

Síðan var skipið dregið til Danmerkur, þar sem smíðinni var lokið, þ.e. smíði innréttinga, niðursetning á véla- og tœkjabúnaði og annar frágangur.

Það var skipsmíðastöðin Ørskovs Staalskipsvœrft í Fredrikshavn, sem annaðist þennan verkþátt sem ber númer 105 hjá stöðinni. Heimild Ægir 2. tbl. 1979.

Eldborg HF 13 var 59 metrar að lengd, breidd skipsins er 12 metrar og aðalvélar tvær 1600 hestafla Nohab.

Árið 1988 var Eldborg HF 13 keypt til Eskifjarðar þar sem hún fékk nafnið Hólmaborg SU 11.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Svanur RE 45

1029. Svanur RE 45 ex Esjar RE 400. Ljósmynd Hreiðar Olgeirsson.

Svanur RE 45 er hér á siglingu á einhverjum firðinum fyrir austan en myndina tók Hreiðar Olgeirsson á síldarvertíð 1982 eða 3.

Svanur RE 45 hét upphaflega Brettingur NS 50 og var smíðaður árið 1967 fyrir Tanga h/f á Vopnafirði í Flekkufirði í Noregi. Brettingur var 317 brl. að stærð, búinn 800 hestafla Lister aðalvél.

Brettingur NS 50 var seldur til Reykjavíkur sumarið 1972 og fékk nafnið Esjar RE 400. Ári síðar keyptu Ingimundur Ingimundarson og Pétur Axel Jónsson Esjar og gefa honum nafnið Svanur RE 45. 

Rúmu ári síðar er Ingimundur orðinn einn eigandi að Svaninum sem var RE 45 til ársins 2002. Þá varð hann RE 40 þegar nýrri og stærri Svanur RE 45 leysti hann af hólmi.

Svanur RE 40 var seldur úr landi árið 2003 en hann hafði verið lengdur og yfirbyggður árið 1979 og mældist þá 330 brl. að stærð. Þá var einnig skipt um aðalvél, 1.330 hestafla Wartsila kom í stað Listersins.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Kalli í Höfða ÞH 234

2434. Kalli í Höfða ÞH 234. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2000.

Kalli í Höfða ÞH 234 var smíðaður hjá Trefjum árið 2000 fyrir Aðalstein Pétur Karlsson á Húsavík.

Báturinn kom í fyrsta skipti til heimahafnar um miðjan septembermánuð það ár og hóf fljótlega róðra. Ef síðuhöfundur man rétt er hann að koma þarna úr fyrsta róðri og samkvæmt uppl. um myndina var það 19. september 2000.

Fallegt haustveður á víkinni þennan dag og hér koma nokkrar myndir sem teknar voru.

Árið 2009 kaupir Sæmundur Ólason í Grímsey bátinn og nefnir hann Steina í Höfða EA 37 en Steini lést sumarið áður.

Báturinn heitir Arnþór EA 37 í dag en G.Ben útgerðarfélag ehf. keypti hann árið 2015.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Akranes kom til Grindavíkur í gær

2777. Akranes ex Víkingur. Ljósmynd Jón Steinar 2020.

Farþegabáturinn Akranes kom til Grindavíkur í gær og tók Jón Steinar þessar myndir af honum.

Akranes var smíðað 1971 og var fyrst notað sem slökkvibátur fyrir sænska herinn. Akranes hét upphaflega Ísafold á íslenskri skipaskrá en það nafn fékk hann árið 2008.

Sumarið 2013 var báturinn seldur til Vestmannaeyja þar sem hann fékk nafnið Víkingur. Í nóvember 2019 keypti Loðna ehf. bátinn og gaf honum nafnið Akranes.

Samkvæmt því sem fram kemur í kommenti á síðu Jóns Steinars er stefnt að því að sigla Akranesi til Grænhöfðaeyja.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution