Gulltoppur II EA 229

7159. Gulltoppur II EA 229 ex Guðrún Helga EA 85. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2020.

Gulltoppur II EA 229 var smíðaður í Trefjum ehf. í Hafnarfirði árið 1989 og er af gerðinni Skel 80.

Báturinn, sem áður hét Guðrún Helga EA 85, er gerður út af Gullfesti ehf. á Akureyri.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Jóna Eðvalds

2618. Jóna Eðvalds SF 200 ex Krossey SF 20. Ljósmynd Sverrir Aðalsteinsson 2020.

Uppsjávarveiðiskipið Jóna Eðvalds SF 200 kom til Hafnar í Hornafirði í dag og tók Sverrir Aðalsteinsson þessa mynd eftir að hún lagðist að bryggju.

Á heimasíðu Skinneyjar-Þinganess segir:

Jóna Eðvalds var smíðuð hjá Flekkefjord skipasmíðastöðinni í Noregi árið 1975.  Skipið hét áður Birkeland, Björg Jónsdóttir og Krossey. Jóna fór í miklar endurbætur í Póllandi árið 2004 þar sem skip var um aðalvél og ný brú sett á skipið. 2008 var frystilestum breytt og RSW kælikerfi sett í lestar skipsins. Jóna Eðvalds stundar uppsjávarveiðar á síld, loðnu og makríl. 

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Nýr Börkur sjósettur í Póllandi

Börkur NK 122. Ljósmynd svn.is 2020.

Í gær hófst vinna við að sjósetja nýjan Börk en hann er í smíðum hjá danska fyrirtækinu Karstensens Skibsværft AS. Skrokkur skipsins er smíðaður í skipasmíðastöð Karstensens í Gdynia í Póllandi og þar fer sjósetningin fram.

Á heimasíðu Síldarvinnslunnar segir að skrokkurinn verði dreginn í nóvember nk. til Skagen í Danmörku og þar verður skipið fullklárað. Skipið verður sjósett án yfirbyggingar en hún verður sett á eftir sjósetninguna.

Sjósetningin fer þannig fram að hjólabúnaður er settur undir skipsskrokkinn og honum ekið út á stóran flotpramma sem er síðan dreginn frá bryggju og út á nægjanlegt dýpi. Sjó er síðan dælt í tanka prammans og honum sökkt nægilega mikið til að skipið fljóti. Það er síðan dregið að bryggju við skipsamíðastöðina þar sem haldið verður áfram að vinna í því.

Hinn nýi Börkur verður hið glæsilegasta skip í alla staði en það er byggt til nóta – og flotvörpuveiða. Lengd skipsins er 88 metrar, breiddin 16,6 metrar og dýptin 9,6 metrar. Stærð skipsins er 4.100 brúttótonn. Í skipinu verða tvær aðalvélar 3.600 kw hvor og ásrafall skipsins verður 3.500 kw. Þá verður í skipinu 820 kw hjálparvél. Alls verða 13 kælitankar í skipinu og til að kæla aflann verða tvö kerfi, hvort um sig 1.500 kw. Samtals verða tankarnir 3.420 rúmmetrar. Vistarverur verða fyrir 16 manns.

Gert er ráð fyrir að smíði skipsins verði að fullu lokið á komandi vori.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution