Anna SI 117

7. Anna SI 117. Ljósmynd Hannes Baldvinsson.

Anna SI 117 var smíðuð í Zaandam í Hollandi árið 1960 fyrir Þráinn Sigurðsson útgerðarmann á Siglufirði. Hannes Baldvinsson tók þessa mynd af Önnu sem var 150 brl. að stærð búin 500 hestafla Kromhout díesel vél.

Anna var seld 28 maí 1970, Skrúðsbergi h/f á Fáskrúðsfirði, hélt nafninu en varð SU 3. Seld 14 mars 1974, Sverri h/f í Grindavík, hét áfram Anna en nú GK 79. 

Árið 1975 var sett ný 640 hestafla Samofa díesel vél í bátinn sem var síðan seld þann 6 mars 1978, Önnu h/f í Stykkishólmi, hét áfram Anna en nú SH 35. Í október 1979 kaupir Skagaberg s/f á Akranesi Önnu sem enn hélt nafni sínu en varð AK 56. 1980 var aftur skiptu vél og nú var sett niður 640 hestafla. Mitsubishi díesel vél. Í byrjun árs 1984 kaupir Rækjunes h/f í Stykkishólmi bátinn sem hélt nafninu en varð SH 122. 

Anna var endurmælt 26 febrúar 1985 og mældist þá 132 brl. að stærð. Báturinn var seldur 16 janúar 1990 Sigurbirni Hilmarssyni ofl. (Ósk h/f) í Vestmannaeyjum og eftir að hafa borið nafnið Anna í 30 ár tæp fékk báturinn nýtt nafn, Freyr VE 700. Eyjavík h/f í Vestmannaeyjum kaupir bátinn í maílok 1991 og fékk hann þá nafnið Sigurvík VE 700. Selt 15 apríl 1994, Goðaborg h/f í Vestmannaeyjum, hét Stokksnes VE 700. Þessar heimildir eru úr Íslensk skip en þar segir jafnframt að Stokksnesið hafi verið talið ónýtt og tekin af skrá 14 febrúar árið 1995. 

Svo var nú ekki því það var Stokksnes RE 123 og lá við bryggju hér á landi til ársins 2003 að það var selt erlendis og fór til veiða við Afr­íkustrendur fyr­ir hina nýju eig­end­ur. Og er enn á floti að ég held.

Í Morgunblaðinu 28. desember 1960 sagði m.a svo frá komu Önnu SI 117 til heimahafnar á Siglufirði:

Í gærkvöldi kom hingað nýr vélbátur, Anna heitir sá SI 117. Er þetta 140 tonna skip smíðað í Hollandi, allt hið fallegasta vandaðasta til að sjá. Eigandi þess er hinn dugmikli útgerðarmaður hér í bænum, Þráinn Sigurðsson. Skipstjóri er Jón Guðjónsson.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Stella EA 28

1803. Stella EA 28 ex Stella ÞH 202. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2020.

Grásleppubáturinn Stella EA 28, sem hér sést koma að landi á Kópaskeri í vikunni, hét upphaflega Tvistur ÍS 256 frá Suðureyri við Súgandafjörð.

Báturinn var smíðaður árið 1987 í Bátagerðinni Samtak hf. í Hafnarfirði. Árin 1992 – 2004 var hann í Grundarfirði undir nafninu Tvistur SH 152.

Vorið 2004 fær hann nafnið Stella ÞH 202 og heimahöfnin Kópasker en það er í ársbyrjun 2010 sem hann fær EA 202 og heimahöfn á Dalvík.

Það er Útgerðarfélag Dalvíkur ehf. sem gerir Stellu EA 28 út.

1803. Stella EA 28 ex Stella ÞH 202. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2020.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution