
Það er ekki úr vegi að birta mynd af Þorláki helga ÁR 11 á Þorláksmessu.
Myndin var tekin þegar Þorlákur helgi ÁR 11 var á rækjuveiðum úti fyrir Norðurlandi um árið en hann var smíðaður í Noregi 1960 fyrir bræðurnar Ársæl og Þorstein Júlíussyni í Neskaupstað.
Hann mældist 147 brl. að stærð og var með 400 hestafla Wickmann aðalvél. Nesútgerðin hf. í Neskaupsstað kaupir bátinn í júní 1962 og í nóvember 1964 kaupir Garðar Lárusson í Neskaupsstað bátinn sem fær nafnið Sæfaxi II NK 123. Í ágústmánuði 1970 er Sæfaxi II seldur á Borgarfjörð eystri, kaupandi Útgerðarfélag Borgarfjarðar sem gefur bátnum nafnið Glettingur NS 100.
Tæpu ári síðar fær báturinn nafnið Höskuldsey SH 2 þegar hann var seldur Eyjum hf. í Stykkishólmi. 15. júlí kaupir Straumnes hf. á Selfossi bátinn sem fær nafnið Birtingur ÁR 44 .
Í febrúar 1977 kaupir Guðmundur Haraldsson í Grindavík bátinn sem fær nafnið Búðanes GK 101 sem hann hefur til ársloka 1980 þegar Einarshöfn hf. á Eyrarbakka kaupir bátinn og gefur honum það nafn sem hann ber á myndinni og bar alla tíð eftir það. Varð síðan SI 71 eftir að Sædór hf. á Siglufirði keypti bátinn 1986 og hélt þeim einkennisstöfum og númeri eftir að Samherji keypti hann 1989. (Íslensk skip)
Þann 29 janúar 1960 sagði svo frá komu bátsins til landsins í Austurlandi:
Nýr bátur, Stefán Ben N.K. 55
Eins og lesendum blaðsins er kunnugt, hafa þeir bræður Ársæll og Þorsteinn Júlíussynir, átt bát í smíðum í Noregi. Í fyrravetur sökk bátur þeirra, Langanes, við Vestmannaeyjar og réðust þeir þá í að láta smíða þetta nýja skip, sem er nær þrisvar sinnum stærra. Stefán Ben er smíðaður eftir sömu teikningu og v/s Guðrún Þorkelsdóttir á Eskifirði og að flestu leyti eins búinn að tækjum. Var þeim báti nýlega lýst hér í blaðinu og gildir það, sem þar var sagt einnig um Stefán Ben.
Stefán Ben fékk slæmt veður fyrsta sólarhring heimferðarinnar og reyndist hið ágætasta sjóskip. Að undanförnu hafa menn verið að vakna til meðvitundar um að Norðfirðingar þyrftu að eignast báta af svipaðri stærð og þessi er, til að afla fiskjar með heimalöndun fyrir augum. Stefán Ben er fyrsta skipið, sem Norðfirðingar eignast af þessari stærð, og það er trú mín, að síðar verði litið svo á, að með komu hans hafi verið mörkuð merk tímamót í útgerðarsögu þessa bæjar. Og það er von allra, að fleiri bátar af svipaðri stærð komi á eftir og þá frekar fyrr en síðar.
Stefán Ben verður gerður út með línu, á útilegu og síðan net héðan að heiman í vetur og á væntanlega eftir að flytja mikla björg að landi. Atvinnuhorfur í vetur batna til mikilla muna við komu þessa skips. Frá því Stefán Ben kom, hefur verið unnið af kappi að því að búa hann á veiðar og mun hann fara í fyrstu veiðiferðina í dag.
Skipstjóri á bátnum er Einar G. Guðmundsson, stýrimaður Birgir Sigurðsson og 1. vélstjóri Freysteinn Þórarinsson.
Austurland óskar þeim bræðrum til hamingju með bátinn og Norðfirðingum öllum til hamingju með þessa þýðingarmiklu viðbót við flotann og þau merku tímamót sem koma Stefáns Ben táknar í útgerðarsögu staðarins.
Svo mörg voru þau orð en báturinn, sem var lengdur 1967, fór í brotajárn árið 1992.
Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í stærri uppplausn.