
Bárður SH 81 frá Arnarstapa er bátur sem ekki hefir oft borið fyrir augu þeirra sem sótt hafa síðurnar mína heim en þó í tvígang.
Og allt er þegar þrennt er og hér kemur mynd sem félagi Alfons sendi mér í morgun og sýnir Bárð SH 81 koma að landi í Ólafsvík.
Bárður SH 81 var smíðaður hjá Samtak ehf. í Hafnarfirði árið 2001. Hann var lengdur um 1,60 metra hjá Sólplasti í Sandgerði árið 2008. Mælist 14,98 metrar eftir það.
Bárður er reyndar orðinn SH 811 á vef Fiskistofu en eins og kunnugt er er von á nýjum Bárði í vor. Það er búið að fiska mikið á þennan en sá nýi er mun stærri.
Hann verður 26,90 metra langur og 7 metrar á breidd og þar með stærsti trefjaplastbátur sem smíðaður hefur verið fyrir íslenska útgerð. Nýi Bárður er smíðaður hjá Bredgaards Boats í Rødby í Danmörku.
Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.
By clicking on the images you can wiew them in higher resolution