Fróði RE 44

509. Fróði RE 44 ex Gylfi EA 628. Ljósmynd Guðmundur Sveinsson.

Jæja þá er spurning hvort einhver kannast við bátinn sem Guðmundur Sveinsson á Neskaupstað myndaði um árið í Reykjavík.

Svarið er komið en upphaflega hét þessi bátur Gylfi EA 628, smíðaður á Akureyri 1939, fyrir Valtý Þorsteinsson í Rauðuvík við Eyjafjörð.

Gylfa átti Valtýr til ársins 1965 er báturinn var seldur Guðmundi Jónssyni í Reykjavík. Hann nefndi bátinn, sem var 35 brl. að stærð, Fróða RE 44 og átti til ársins 1972.

Þá lá leið bátsins aftur norður í Eyjafjörð þegar Svavar og Guðlaugur Gunnþórssynir keyptu hann til Grenivíkur og nefndu Eyfirðing ÞH 39.

Í lok árs 1974 var Eyfirðingur seldur Sigurjóni Jónssyni á Seltjarnarnesi og fékk báturinn aftur nafnið Fróði, nú RE 111.

En það stóð ekki lengi því vorið 1975 var báturinn seldur til Grindavíkur þar sem hann fékk nafnið Sigurþór GK 43. Eigandi Steinþór Þorleifsson.

Upphaflega var í bátnum 100 hestafla Alpha dieselvél en tvívegis var skipt um vél. Árið 1944 var sett í hann 240 hestafla GM. 1975 kom svo 250 hestafla vél sömu gerðar í stað hennar.

Sigurþór GK 43 var talinn ónýtur og tekinn af skipaskrá haustið 1983.

Uppl. Íslensk skip.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Kristín HU 219

7526. Kristín HU 219 ex Beggi á Varmalæk HU 219. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2021.

Í gær kom að landi á Húsavík handfærabáturinn Kristín HU 219 sem reyndar hefur fengið skráninguna ÞH 55 og heimahöfn á Raufarhöfn.

Það eru Möðruvellir ehf. sem nýverið keypti bátinn frá Blönduósi en áður var hann gerður út undir nafninu Beggi á Varmalæk HU 219 frá Skagaströnd.

Kallarnir voru að prófa bát og útbúnað og lönduðu tæpum 700 kg.

Upphaflega hét báturinn, sem var smíðaður hjá Bátasmiðju Guðgeirs ehf. á Akranesi árið 2003, Palli Tomm EA 70. Báturinn er af gerðinni Perla 790 og er tæplega 6 brl. að stærð.

Árið 2005 fékk hann nafnið Guðmundur Helgi ÍS 66 með heimahöfn á Flateyri. 2006 hét hann Sportacus KE 66 með heimahöfn í Keflavík. Árið 2009 fékk hann nafnið Halla Sæm SF 23 með heimahöfn á Hornafirði.

Það nafn bar hann til ársins 2017 að hann fékk nafnið Beggi á Varmalæk HU 291 sem hann bar til ársins 2020 að hann fékk Kristínarnafnið.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Börkur NK 122 á Skjálfanda

2865. Börkur NK 122 ex Malene S. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2021.

Börkur NK 122 kom hér inn á Skjálfandaflóa í morgun á leið sinni á loðnumiðin. Sennilega að kanna hvort eitthvað sé að finna hér.

Börkur NK 122 hét áður Malene S frá Noregi og var keyptur hingað til lands af Síldarvinnslunni hf. í febrúar árið 2014.

Börkur var smíðaður í Tyrklandi árið 2012 en hann er 3588 BT að stærð, 80,30 metr­ar að lengd og 17 m á breidd.

Nýr Börkur NK 122 mun leysa þennan af hólmi en hann er í smíðum hjá Karstensens Skibsværft í Skagen í Danmörku.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Margrét GK 33

2952. Margrét GK 33. Ljósmynd Jón Steinar 2021.

Jón Steinar tók þessar myndir í vikunni af línubátnum Margréti GK 33 koma til hafnar í Grindavík.

Það er Nesfiskur ehf. sem gerir bátinn út en hann var smíðaður hjá Víkingbátum árið 2019.

Margrét GK 33 er tæplega 22 BT að stærð en lengd hennar er 11,99 metrar.

Heimahöfn Suðurnesjabær.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution