
Dala Rafn VE 508 var smíðaður hjá Slippstöðinni á Akureyri 1974 og hafði fengið nafnið Kópanes BA 99 þegar hann var sjósettur.
Báturinn var upphaflega smíðaður fyrir Einhamar hf. á Bíldudal en áður en til afhendingar kom seldi fyrirtækið bátinn til Mumma hf. í Sandgerði sem nefndi hann Mumma GK 120.
Þess má geta að þegar báturinn var sjósettur undir nafninu Kópanes BA 99 þann 18. júní 1974 var um leið sjósettur annar bátur sömu gerðar. Hann hét þá Seley SU 10 og smíðaður fyrir samnefnt fyrirtæki á Eskifirði. En áður en til afhendingar hans kom, sem var 12. október 1974, hafði báturinn fengið nafnið Sæljón SU 104 og var í eigu Friðþjófs hf. á Eskifirði.
En aftur að Mumma GK 120 en hann var seldur Sigurði Þórðarsyni í Vestmannaeyjum haustið 1976 og nefndi hann bátinn Ölduljón VE 120.
Sumarið 1980 kaupir Þórður Rafn Sigurðsson bátinn og nefnir Dala Rafn VE 508. Haustið 1985 fór báturinn í breytingar hjá Skipalyftunni í Eyjum sem fólust aðallega í yfirbyggingu og nýrri brú.
Á árinu 1993 kaupir Hvammur hf. í Hrísey bátinn, sem þá bar nafnið Ölduljón aftur en nú VE 509. Í Hrísey fékk báturinn nafnnið Haförn EA 955 og var gerður þaðan út til ársins 2000 er hann var seldur til Hornafjarðar.
Þar fékk báturinn nafnið Erlingur SF 65 og var í eigu Eskeyjar ehf. á Höfn. Árið 2003 var báturinn kominn í eigu Skinneyjar-Þinganess hf. sem seldi hann úr landi árið 2013 til niðurrifs.
Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution