Landað í kvöldblíðunni

2965. Bárður SH 81 í Húsavíkurhöfn í kvöld. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Það var logn og blíða á Húsavík í dag og það sama var upp á teningnum í kvöld þegar Bárður SH 81 var að landa afla sínum.

Aftan við Bárð lá Hafborgin sem landaði síðdegis og ef minni mitt svíkur ekki eru þetta tveir nýjustu neta- og dragnótbátar flotans. Báðir smíðaðir í Danmörku.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Blængur á Skjálfanda

1345. Blængur NK 125 ex Freri RE 73. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2020.

Frystitogarinn Blængur NK 125 frá Neskaupstað kom inn Skjálfandann síðdegis í dag og stoppaði um stund framan við höfnina á Húsavík hvar léttabátur fór að bryggju.

Heppnin var með mér er ég sá til skólabróðurs sem var að koma að landi eftir að hafa verið að veiða í soðið, og var hann meira en til í það að fara með mig til móts við Blæng og mynda hann. Takk Siddi.

Blængur NK 125 hét upphaflega Ingólfur Arnarson RE 210, og var einn stóru Spánartogaranna svokölluðu og sá eini sem er enn í fiskiskipaflotanum.

Hann var smíðaður fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur árið 1973 í Astilleros Luzuriaga S.A. skipasmíðastöðinni í Pasajes de San Juan í Baskalandi.

Ögurvík hf. keypti Ingólf Arnarson RE 210 árið 1985 og gaf honum nafnið Freri RE 73. Honum var í framhaldinu breytt í frystitogara í Slippstöðinni á Akureyri.

Árið 2000 fór Freri RE 73 til Póllands umfangsmiklar breytingar þar sem fólust m.a í því að hann var lengdur um 10 metra og skipt um aðalvél. Togarinn er nú tæplega 79 metrar og í honum er 5000 hestafla Wartsila aðalvél.

Síldarvinnslan hf. festi kaup á Frera RE 73 í júní 2015 og fékk hann nafnið Blængur NK 125.

Eftir að Síldarvinnslan eignaðist Blæng NK 125 fór togarinn í gagngerar endurbætur í Póllandi og ný vinnslulína var sett í hann hjá Slippnum á Akureyri.

Blængur NK 125 hóf veiðar fyrir Síldarvinnsluna í febrúar 2017.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution