
Hér koma nokkrar myndir sem sýna dragnótabátinn Ask GK 65 koma til hafnar í Grindavík í lok aprílmánaðar árið 2008.
Upphaflega hét báturinn Mýrarfell HF 150, var 10 brl. að stærð. Hann var smíðaður í Bátalóni árið 1987 fyrir Hvammsfell hf. í Hafnarfirði.
Síðar sama ár var einkennisstöfum og númeri breytt í ÍS 123. Eigandi Rani ehf. og heimahöfn Þingeyri.
Þann 26. júní 1996 hvolfdi bátnum úti fyrir mynni Arnarfjarðar og hann sökk. Mannbjörg varð og náðist báturinn á flot aftur og var gerður upp.
Báturinn hefur verið lengdur oftar en einu sinni og breikkaður og mælist nú 28 brl. að stærð.
Árið 2003 var báturinn kominn til Bíldudals þar sem hann fékk nafnið Ýmir BA 32 og þrem árum síðar var hann keyptur til Grindavíkur. Þar fékk hann nafnið Askur GK 65, eigandi Jens Valgeir ehf. í Grindavík.
Frá Grindavík var báturinn gerður út til neta- og dragnótaveiða áratug eða svo en snemma árs 2017 keypti Hraðfrystihús Hellisands bátinn sem varð SH 165 um tíma.
Um ári síðar var báturinn afur kominn vestur á firði, nú til Tálknafjarðar þar sem hann fékk nafnið Fálki BA 65. Samkvæmt vef Fiskistofu er eigandinn Björg Finance ehf. og báturinn notaður til að þjónusta fiskeldi.
Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution