
Bervík SH 343, sem sést hér á mynd Tryggva Sigurðssonar, hét upphaflega Æskan SI 140 og var smíðuð 1963 hjá Raun Bybergs Skibsbyggeri as. í Odense í Danmörku fyrir Æskuna hf. á Siglufirði.
Hún mældist í upphafi 82 brl. að stærð en var síðan endurmæld niður í 72 brl. Aðalvélin var af Völundgerð, 330 hestöfl en hún vék árið 1975 fyrir 580 hestafla Cummins.
Árið 1977 er báturinn kominn til Hafnar í Hornafirðir þar sem hann verður Æskan SF 140. Eigandi Auður hf. þar í bæ.
1992 kaupir Fengur hf. í Ólafsvík Æskuna og nefnir Friðrik Bergmann SH 240. Í maí 1999 kaupir nýstofnað útgerðarfyrirtæki, Bervík, Friðrik Bergmann og nefnir hann Bervík SH 343. Það nafn bar báturinn í nokkra mánuði áður en hann fékk aftur Æskunafnið og nú SH 343.
Æskan SH 343 sökk 15. júlí árið 2000 eftir að leki hafði komið að bátnum skammt undir Látrabjargi. Mannbjörg varð.
Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution