
Gnúpur GK 11 kom í land síðastliðin mánudag úr sinni síðustu veiðiferð undir merkjum Þorbjarnar hf í Grindavík en honum hefur nú verið lagt.
Jón Steinar tók þessa mynd af togaranum við bryggju í logni gærdagsins en hann skrifaði eftirfarandi á síðu sína Báta & bryggjubrölt:
Þessi síðasta veiðiferð taldi 27 daga á veiðum og komið var í land einu sinni til að millilanda. Aflaverðmætið var 285 milljónir. Allan tímann var verið að veiðum úti fyrir Vestfjörðum í blönduðum afla. Skipsstjóri í veiðiferðinni var Grétar Kristjánsson sem líkt og skipið var einnig í sinni síðustu veiðiferð en Grétar er á sínu 75. aldursári og ku hafa verið elsti starfandi togaraskipsstjórinn í flotanum.
Gnúpur GK 11 hét upphaflega Guðbjörg ÍS 46 og var smíðuð árið 1981 í Flekkefjørd fyrir Hrönn hf. á Ísafirði.
Skipið var lengt árið 1988 og er 68,2 metrar að lengd, breidd þes er 10 metrar og það mælist 1141 brúttótonn að stærð.
Þorbjörninn keypti skipið árið 1994 og var því í framhaldinu breytt í frystitogara.
Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution