Freyja GK 364

923. Freyja GK 364 ex Kolbrún ÍS 74. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Séníverinn var eitt sinn gulur og hét Freyja GK 364 með heimahöfn í Garðinum. Eigandi Halldór Þórðarson sem gjarnan var nefndur Dóri á Freyjunni.

Báturinn var smíðaður árið 1957 í Danmörku fyrir Sigvalda Þorleifsson h/f í Ólafsfirði og hét Þorleifur Rögnvaldsson ÓF 36. Báturinn var endurbyggður frá grunni hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur og lauk þeirri vinnu árið 1985 en stöðin hafði átt bátinn frá árinu 1974.

Hér má lesa nánar um það hvaða nöfn báturinn hefur borið í gegnum tíðina.

Eins og kunnugt er lenti hann í snjóflóðinu á Flateyri í janúar sl. og liggur að ég best veit hálfsokkin þar enn. En vonandi verður honum bjargað.

Samkvæmt vef Fiskistofu fékk báturinn nafnið Freyja GK 364 í marsmánuði 1995 og bar það til sumarsins 2000. Þá fékk báturinn nafnið Röstin GK 120 en árið 2010 fékk hann Orranafnið sem hann ber í dag.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Ófeigur VE 324

1179. Ófeigur VE 324 ex Árni í Görðum VE 73. Ljósmynd Hreiðar Olgeirsson.

Reknetabáturinn Ófeigur VE 324 er hér að koma að bryggju á Vopnafirði, held ég. Myndina tók Hreiðar Olgeirsson skipstjóri á Kristbjörgu ÞH 44.

Upphaflega hét báturinn Árni í Görðum VE 73 og var smíðaður fyrir Einar Guðmundsson h/f hjá Þorgeir & Ellert h/f á Akranesi. Hann var 103 brl. að stærð búinn 500 hestafla Alpha aðalvél.

Haustið 1983 er Árni í Görðum VE 73 seldur innanbæjar í Vestmannaeyjum og fær nafnið Ófeigur VE 324.

Árið 1989 var Ófeigur VE 324 seldur norður á Blönduós þar sem hann fékk nafnið Ingimundur gamli HU 65.

Ingimundur gamli HU 65 sökk sunnudaginn 8. október 2000 þar sem hann var að rækjuveiðum. Sæbjörg ST 7 bjargaði tveim úr áhöfn bátsins, sem þá var gerður út frá Hvammstanga, en skipstjórinn fórst með bátnum.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Pétur Jacob SH 37

1227. Pétur Jacob SH 37 ex Þrái HF 127. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 1986.

Pétur Jacob SH 37, sem hér sést koma að landi í Ólafsvík, hét upphaflega Þytur NS 22 og var smíðaður árið 1972 hjá Skipasmíðastöð Guðmundar Lárussonar á Skagaströnd.

Báturinn sem var tæplega 12 brl.. að stærð var smíðaður fyrir Þyt h/f á Vopnafirði sem gerði bátinn út í þrjú ár. Hann var búinn 120 hestafla Kelvinvél.

1975 var hann seldur til Mjóafjarðar, eigandi Þytur h/f og báturinn varð SU 89. Í desember 1976 var báturinn seldur til Reykjavíkur þar sem hann fékk nafnið Gunnar Guðmundsson RE 19.

Árið 1979 var sett í hann 185 hestafla Cumminsvél og sumarið 1983 er hann seldur til Hafnarfjarðar þar sem hann fær nafnið Þrái HF 127.

Í desember 1984 kaupir Finnur Gærdbo í Ólafsvík bátinn og nefnir Pétur Jacob SH 37. Hann var seldur til Vestmannaeyja árið 1990 þar sem hann fékk nafnið Leó VE og ári síðar til Sandgerðis þar sem hann fékk nafnið Veiga GK 4. Það var hans síðasta nafn en báturinn var tekinn af skipaskrá 1994.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Dagstjarnan KE 3

1558. Dagstjarnan KE 3 ex Rán HF 342. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Hér má sjá skuttogarann Dagstjörnuna KE 3 við bryggju í Njarðvík en hún hét áður Rán HF 342.

Upphaflega hét togarinn þó C.S Forester og var smíðaður árið 1969 en keyptur hingað til lands árið 1980.

Þá sagði m.a í Ægi:

4. maí s.l. bættist nýr skuttogari í flota landsmanna, en þá kom skuttogarinn Rán HF í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Hafnarfjarðar. Skuttogari þessi, sem áður hét C.S. Forester, er keyptur notaður frá Englandi, og er byggður þar árið 1969 hjá skipasmíðastöðinni Charles D. Holmes & Co Ltd í Beverley, smíðanúmer 1015. C.S. Forester var einn fyrsti ísfiskskuttogari, sem Bretar byggðu til veiða á fjarlœgum miðum. Nefna má að skuttogari þessi kom talsvert við sögu í Þorskastríðinu hér við land.

Eftir að skipið kom til landsins voru gerðar nokkrar breytingar á búnaði og bœtt við tœkjum og má þar einkum nefna, að sett var sérstök vökvaknúin skutrennuloka í skipið, gerðar breytingar á lest og vinnuþilfari, bætt við þremur vökvaknúnum hjálparvindum og loran-tœkjabúnaði í brú.

Rán HF er í eigu Gnoðar h/f í Hafnarfirði, en það fyrirtœki átti áður 348 brl. síðutogara sem hét Rán GK en ber nú nafnið Ingólfur. Skipstjóri á Rán er Guðmundur Vestmann og 1. vélstjóri Marteinn Jakobsson. Framkvæmdastjóri er Ágúst G. Sigurðsson.

Togarinn var 56,54 metrar að lengd, 10.97 metra breiður og mældist 743 brl. að stærð.

Rán HF 342 var seld til Suðurnesja í marsmánuði 1981 og fékk þá nafnið Dagstjarnan KE 3. ÚA keypti Dagstjörnuna síðla árs 1987 og fékk togarinn nafnið Sólbakur EA 305.

Sólbakur EA 305 var gerður út til ársins 1992 en 12. mars það ár kom hann úr síðustu veiðiferðinni fyrir ÚA. Hann var síðan seldur úr landi til niðurrifs.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution