Siglunes ÞH 60

1100. Siglunes ÞH 60 ex Siglunes HU 222. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Siglunes ÞH 60 kemur hér að landi á Húsavík um árið en það var keypt til Húsavíkur haustið 1987.

Dagur sagði svo frá 11. nóvember um komu bátsins til Húsavíkur:

Siglunes ÞH 60, 101 tonna stálskip kom til heimahafnar á Húsavík á föstudagsmorguninn. Skipið er keypt frá Hvammstanga en var smíðað á Akranesi 1970. 

Skipið er búið til línu-, neta- og rækjuveiða og áætlað er að það haldi til línuveiða strax á þriðjudaginn. Kaupverð skipsins er 38 milljónir. Eigendur þess eru bræðurnir Óskar og Aðalsteinn Karlssynir og Hera Sigurgeirsdóttir, móðir þeirra.  Þau hafa stundað útgerð í 27 ár, í fyrstu ásamt Karli Aðalsteinssyni sem nú er látinn. 

Það er Óskar sem er skipstjóri á Siglunesi, 6 manna áhöfn er á skipinu og er Karl Geirsson systursonur bræðranna, stýrimaður. Aðalsteinn er skipstjóri á Sæborgu ÞH-55, 40 tonna bát sem mæðginin eiga einnig. 

Til að fjármagna kaupin á Siglunesi var Guðrún Björg, 15 tonna eikarbátur seldur til Hafnarfjarðar fyrir 11 milljónir.

 Aðspurður um hvernig honum litist á skipið sagði Óskar skipstjóri: „Mér líst bara vel á skipið, en þetta eru mikil viðbrigði miðað við litla bátinn sem var svipaður að stærð og lúkarinn á þessum.“

Þess má geta að Guðrún Björg var einnig smíðuð 1970 en Siglunes er þó yngra skip þar sem smíði þess lauk fjórum dögum síðar. 

Báturinn hét hét upphaflega Siglunes SH 22 frá Grundarfirði. Smíðaður hjá Þorgeir og Ellert h/f árið 1970 fyrir Hjálmar Gunnarsson útgerðarmann.

Siglunesið var selt Meleyri h/f á Hvammstanga 1982 og varð við það HU 222. Eftir að báturinn var seldur frá Húsavík vorið 1990 hét hann áfram Siglunes, fyrst SH 22 og síðan HF 26. Því næst Erlingur GK 212, Erlingur GK 214, Sigurbjörg Þorsteins BA 65, Strákur ÍS 26 og loksins Strákur SK 126 sem varð hans síðasta nafn. 

Strákur SK 126 sigldi sína síðustu ferð þegar hann fór til Esbjerg í Danmörku til niðurrifs. Hafði hann annan fyrrum húsvíkskan bát í slefi yfir hafið og lögðu þeir upp frá Krossanesi við Eyjafjörð sumarið 2008. Þar var um að ræða Jón Steingrímsson RE 7 sem upphaflega hét Dagfari ÞH 40.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution