Særún EA 251

2711. Særún EA 251 ex Elli P SU 206. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2019.

Særún EA 251 frá Árskógssandi liggur hér við bryggju á Siglufirði en þar var báturinn smíðaður og afhentur árið 2007.

Upphaflega hét báturinn Lúkas ÍS 71 og í eigu Álfsfells ehf. á Ísafirði. Síðar, eða árið 2011, fær hann nafnið Maggi Jóns KE 77 og 2015 Elli P SU 206.

Það var svo haustið 2018 sem Særún EA 251 (2651) var seld til Breiðdalsvíkur og Sólrún ehf. á Árskógssandi tók Ella P upp í kaupin. Við það fékk hann nafnið Særún EA 251.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Matthildur SH 67

241. Matthildur SH 67 ex Guðbjörg ÍS 14. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Ólafsvíkurbáturinn Matthildur SH 67 lætur hér úr höfn í Hafnarfirði eftir slipp um árið.

Matthildur SH 67 hét upphaflega Guðbjörg ÍS 14 og var smíðuð fyrir Hrönn h/f á Ísafirði. Smíðin fór fram í Djupvik í Svíþjóð og kom báturinn til heimahafnar á aðfaranótt aðfangadags jóla árið 1963.

Í Morgunblaðinu 27. des það ár sagði svo frá:

Nýr vélbátur, Guðbjörg Í.S. 14, kom til Ísafjarðar aðfaranótt aðfangadags jóla. Þetta er 115 lesta eikarbátur, smíðaður í Djupvik í Svíþjóð.

Hann er búinn 495 h.a. Listervél og var ganghraði í reynzluferð 10 1/2 sjómíla. — Tvær ljósavélar af sömu gerð eru í bátnum og öll nýtízku siglinga- og fiskileitartæki.

Guðbjörg lagði af stað til Íslands 17. des. og var 6 sólarhringa á leiðinni og reyndist gott sjóskip.

Eigandi bátsins er Hrönn h.f. og sigldi framkvæmdastjóri félagsins Guðmundur Guðmundsson bátnum upp, en skipstjóri verður hinn kunni aflamaður við Djúp Ásgeir Guðbjartsson.

Báturinn fer á línuveiðar um áramótin.

Svo mörg voru þau orð en árið 1967, í júní, var Guðbjörgin seld til Ólafsvíkur. Kaupendur voru Halldór Jónsson, Jón Steinn Halldórsson, Kristmundur Halldórsson og Leifur Halldórsson. Þeir nefndu bátinn Matthildi SH 67.

Matthildur var endurmæld árið 1969 og mældist þá 104 brl. að stærð. Frá árinu 1971 hét fyrirtækið Stakkholt h/f en sömu eigendur ásamt fleiri fjölskyldumeðlimum.

Árið 1978 var skipt um aðalvél er ný 495 hestafla Lister Blackstone kom í stað þeirrar sem var frá upphafi. Heimild: Íslensk skip

Matthildur SH 67 fékk nafnið Hrönn SH 21 snemma á tíunda áratugnum og árið 1995 er hún orðin Hrönn BA 99. 1998 varð hún Hrönn ÍS 74 og árið 2011 var henni fargað eftir að hafa legið lengi í höfn á Ísafirði.

241. Matthildur SH 67 ex Guðbjörg ÍS 14. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution