Eskja selur Hafdísi SU 220

2400. Hafdís SU 220 ex Hafdís GK 118. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2017.

Útgerðarfélagið Eskja hf. á Eskifirði hefur selt Nesveri ehf. á Rifi línubátinn Hafdísi SU 220.

Austurfrétt greinir frá þessu og þar segir að gengið hafi verið frá kaupunum í byrjun september.

Hafdís er 18 brúttótonna, 15,5 metra langur línubátur, smíðaður árið 1999 og hét upphaflega Valur SH 322.

Báturinn hefur veitt bolfisk fyrir Eskju undanfarin ár og í Austurfrétt segir að báturinn sé seldur án aflaheimilda. Páll Snorrason, framkvæmdastjóri rekstrar- og fjármálasviðs Eskju, segir að fyrirtækið hafi undanfarin ár unnið að því að skipta út veiðiheimildum sínum í bolfiski fyrir heimildir í uppsjávartegundum til að styrkja kjarnastarfsemina á Eskifirði. Því standi ekki til að fá annan línuveiðibát í stað Hafdísar

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.

Bergey VE afhent Bergi-Hugin í dag

2964. Bergey VE 144. Ljósmynd Guðmundur Alfreðsson 2019.

Í dag var ný Bergey VE afhent Bergi-Hugin, dótturfyrirtæki Síldarvinnslunnar í Vestmannaeyjum, í Aukra í Noregi. 

Frá þessu segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar hf.

Bergey er eitt af sjö skipum sem skipasmíðastöðin Vard smíðar fyrir íslensk fyrirtæki og er hún systurskip Vestmannaeyjar VE sem afhent var Bergi-Hugin í júlímánuði sl.  

Skipið er hið glæsilegasta og í alla staði vel búið. Um er að ræða togskip sem er 28,9 m að lengd og 12 m að breidd. Stærð þess er 611 brúttótonn. Skipið er m.a. búið tveimur aðalvélum og tveimur skrúfum. 

Afhending skipsins fór fram með viðhöfn í morgun og er gert ráð fyrir að það sigli áleiðis til Íslands á morgun. Bergey mun halda beint til Akureyrar þar sem Slippurinn mun annast frágang á millidekki og gæti verið komin þangað á laugardagskvöld.

Væntanlega mun Bergey ekki koma til heimahafnar í Vestmannaeyjum fyrr en einhvern tímann í desembermánuði.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.