Geirfugl GK 66

88. Geirfugl GK 66 ex Héðinn ÞH 57. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Geirfugl GK 88 kemur hér til hafnar í Grindavík en þaðan var þessi bátur lengst af gerður út.

Smíðaður fyrir Húsvíkinga árið 1960 og í Alþýðublaðinu þann 28. júlí 1960 sagði svo frá komu Héðins til heimahafnar á Húsavík í fyrsta skipti:

Síðdegis í gær bættist flota Húsavíkur glæsileg aukning, er vélskipið „Héðinn“ renndi hér að bryggju. Fjöldi fólks hafði safnazt saman á bryggjunni til að taka á móti skipinu og bjóða það velkomið. Eftir kvöldmat var gestum leyft að skoða skipið og var öllum, er um borð komu, bornar veitingar af mikilli rausn. 

Vélskipið „Héðinn“ÞH 57 er smíðað í Noregi hjá Söviken Skibabyggeri’, Seviksgrend pr.Álasund. Skipið er 150 brúttótonn með 140 hestafla Stork-dieselvél. Þessi vél er fyrsta vél sinnar tegundar hér á landi.

Hjálparvél er norsk, Marna, 48 ha. Í skipinu er Deccaratsjá, tveir Simrad-mælar, annar sjálfvirkur, japönsk miðunarstöð,dönsk talstöð af Disagerð, svo og kraftiblökk til síldveiða. Einnig er lest skipsins útbúin kælikerfi.

Umboð fyrir þessa skipasmíðastöð hefur LÍÚ í Reykjavík. Eigandi skipsins er Hreyfi hf., en þetta er annað skip félagsins, sem nú er réttra fjögurra ára.

Skipstjóri á Héðni er Maríus Héðinsson, 1. vélstjóri Kristján Óskarsson og stýrimaður Gunnar Hvanndal. Framkvæmdastj. félagsins er Jón Héðinsson.

Skipið heldur út á síldveiðar síðdegis í dag.    

Þarna stendur að Storkvélin hafi verið 140 hestöfl en hið rétta er að hún var 400 hestöfl.

Héðinn ÞH 57 var seldur Fiskanesi h/f í Grindavík árið 1965 og fékk þá nafnið Geirfugl GK 88.

Fyrrihluta árs 2001 var Geirfuglinn seldur til Hólmavíkur þar sem það fékk nafnið Kópnes ST 46 í eigu samnefnds fyrirtækis. Kópnes var gert út á rækju og í byrjun september 2004 sökk báturinn 27 sjómílum nnv af Skagatá eftir að óstöðvandi leki kom að honum.

Kaldbakur EA bjargaði áhöfninni, þrem mönnum.

88. Kópnes St 46 ex Geirfugl GK 88. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2003.
88. Héðinn ÞH 57. Ljósmynd Baldvin Hannesson Siglufirði.

Færðu inn athugasemd