
Línuskipið Sturla GK 124 lét úr höfn í Grindavík í hinsta sinn í dag en skipið hefur verið selt til Litháen þar sem það fer í brotajárn.
Skipið hét upphaflega Guðmundur RE 29 á íslenskri skipaskrá en hann var keyptur til landsins árið 1972.
Hann var smíðaður árið 1968 hjá Karmsund Verft & og Mek AS á Karmøy í Noregi fyrir Br. Giertsen & Co. A/S, Bergen. Hét upphaflega Senior B-33-B en þegar hann var keyptur hingað til lands var hann Senior H 033.
Guðmundur RE 29, var í eigu skipstjóranna Hrólfs Gunnarssonar og Páls Guðmundssonar og Fiskiðjunnar s/f í Keflavík, var yfirbyggður árið 1975. :Þess má til gamans geta að það var sama aðalvélin í skipinu alla tíð.
Árið 1983 kaupir Hraðfrystistöð Vestmannaeyja Guðmund sem verður VE 29. Síðar var skipt um brú og sett perustefni á Guðmund ásamt nýju frammastri.
Í fréttum sumarið 1998 mátti m.a lesa að nótaskipið Guðmundur VE sé komið undir grænlenskan fána og fékk skipið nafnið Tunu GR 1895 og heimahöfn þess var Ammassalik.
Guðmundur VE 29 var seldur til Grindavíkur árið 2004 en einhverju árum áður hafði hann komið aftur inn á íslenska skipaskrá. Grindvíkingur GK 606 fór hina leiðina og fékk nafnið Guðmundur VE 29.
Það var Þorbjörn hf. í Grindavík, þá Þorbjörn-Fiskanes, sem keypti skipið og gerði út til línuveiða alla tíð. Þegar ný Sturla GK 12 kom í flota Þorbjarnarins í sumar fékk sá gamli GK 124 sem hann ber á þessum myndum sem Jón Steinar tók þegar Sturla lét úr höfn í dag.
Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution