Bíldsey SH 65

2704. Bíldsey SH 65 ex Bíldsey II SH 63. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2020.

Línubáturinn Bíldsey SH 65 kom að landi á Siglufirði síðdegis í dag og voru þessar myndir teknar þá.

Það kom að því að ég náði nokkuð góðum myndum af henni en hún hét upphaflega Konni Júl GK 704 og var smíðaður hjá Seiglu í Reykjavík árið 2006. Eigandi Hviða ehf. og heimahöfnin Garður. 

Árið 2008 fékk báturinn nafnið Kiddi Lár GK 501 þegar Útgerðarfélag Sandgerðis ehf. keypti hann.

Því nafni hét báturinn til ársins 2012 þegar hann fékk Bíldseyjarnafnið eftir að Sæfell hf. í Stykkishólmi keypti hann. Hét reyndar Bíldsey II SH 63 fyrstu mánuðina.

Báturinn var lengdur í 14,98 metra á Siglufirði 2012 en upphaflega var hann 12,5 metrar að lengd. Breidd hans er 4,6 metrar og hann mælist 29,83 BT að stærð.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Jökull SK sökk í Hafnarfjarðarhöfn

288. Jökull SK 16 sokkinn í hafnarfjarðarhöfn. Ljósmynd Magnús Jónsson 2020.

Eikarbáturinn Jökull SK 16 sökk í Hafnarfjarðarhöfn í dag en þar hefur hann legið um allanga hríð.

Þorsteinn ÞH 115 frá Raufarhöfn lá utan á Jökli en sem betur fer tókst að skera hann frá áður en illa færi.

Báturinn hét upphaflega Árni Geir KE 31 en árið 1970 fékk hann nafnið Þorsteinn Gíslason KE 31. 1975 fékk hann GK 2 á kinnunginn og heimahöfnin í Grindavík.

Í upphafi árs 2009 fékk hann nafnið Arnar í Hákoti SH 37 og heimahöfnin Ólafsvík.  Rúmlega ári síðar fær hann núverandi nafn Jökull SK 16 og heimahöfnin Sauðárkrókur.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.

Sóley Sigurjóns

2262. Sóley Sigurjóns GK 200 ex Sólbakur RE 207. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2020.

Sóley Sigurjóns GK 200 landaði rækju á Siglufirði í dag og voru þessar myndir teknar þegar hún lét úr höfn.

Sóley Sigurjóns GK 200 var smíðuð árið 1987 af J.K Skibsbyggeri APS í Danmörku fyrir Grænlendinga og hét Quaasiut II.

Togarinn hét upphaflega Júlíus Havsteen ÞH 1 á íslenskri skipaskrá en er í dag í eigu Nesfisks ehf. í Garðinum. Hann var fyrstu árin hér gerður út á rækju og fryst um borð en lengst af hefur hann verið ísfisktogari.

Hann hefur einnig borið nöfnin Rauðinúpur ÞH 160, Sólbakur EA 7 og Sólabakur RE 207.

Aðalvélin er frá Wartsila og er 847 hestöfl / 632 kW. Mesta lengd skipsins er 41,98 metrar en skráð lengd er 38,36 metrar og breiddin 10,40 metrar. Brúttótonnatalan er 737,09 tonn.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution