Beta GK 36 á Siglufirði

2764. Beta GK 36 ex Beta VE 36. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2020.

Línubáturinn Beta GK 36 hefur róið frá Siglufirði síðan í vor en það er Nesfiskur í Garðinum sem gerir bátinn út.

Beta GK 36, sem er af gerðinni Cleopatra 38, var smíðuð árið 2008 fyrir Útgerðarfélagið Má ehf. í Vestmannaeyjum. Hún er 15 brúttótonn að stærð og leysti af hólmi eldri og minni Betu VE 36 sem var af gerðinni Cleopatra 28.

Í ársbyrjun 2019 var Beta komin með GK í stað VE eftir að Útgerðarfélagið Már ehf. hafði verið selt til Suðurnesja.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Fengur ÞH 207

2125. Fengur ÞH 207. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2020.

Fengur ÞH 207 frá Grenivík kemur hér að landi á Dalvík í gær en báturinn tók þátt í sjóstangveiðimóti sem haldið var þar.

Fengur ÞH 207 var smíðaður árið 1988. Það var Stuðlaberg ehf. á Grenivík, sem bræðurnir Jón og Friðrik Kr. Þorsteinssynir stóðu að, fékk skel bátsins frá Mark hf. á Skagaströnd.

Þeir bræður fullkláruðu bátinn sem fékk nafnið Fengur og hafa gert út alla tíð.

Hann var þiljaður árið 1992 en áður bar hann skipaskrárnúmerið 7117. Báturinn hefur verið lengdur og er tæplega 12 metra langur, 3,18 metrar á breidd og mælist 13,73 brúttótonn að stærð.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Gandí VE 171

2702. Gandí VE 171 ex Rex HF 24. Ljósmynd Tryggvi Sigurðsson.

Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum keypti frystitogarann Rex HF 24 árið 2010 og gaf honum nafnið Gandí VE 171.

Útgerðarfyrirtækið Sæblóm í Hafnarfirði keypti togarann frá Noregi árið 2005 en þar hét hann Havsbryn og átti heimahöfn í Álasundi. Hann fékk nafnið Rex HF 24 og var gerður út til veiða við Afríkustrendur.

Skipið var smíðað árið 1986 í Umoe Sterkoder AS stöðinni í Kristiansund í Noregi og hét upphaflega Longva II M-65-A. Því næst Remøytrål M-110-HØ, Beryl M-110-S og að lokum Havsbryn M-125-H.

Sumarið 2013 var Gandí VE 171 seldur til Færeyja þar sem hann fékk nafnið Olavur Nolsoe FD 181 með heimahöfn í Fuglafirði.

Sumarið 2016 var Olavur Noelsen seldur til Rússlands þar sem hann fékk nafnið Kapitan Gerashcenko MK-0549 sem hann ber enn þann dag í dag. Heimahöfn Murmansk.

Togarinn er 57 metra langur, 13 metra breiður og mælist um 1600 brúttótonn að stærð.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution