
Helgi Héðinsson sjómaður á Húsavík er níræður í dag en hann fæddist á Húsavík og hefur átt hér heima alla sína tíð.
Helgi hefur stundað sjómennsku frá unga aldri og er enn að, fer með Óðni félaga sínum og frænda á Fram ÞH 62 að vitja hákarlalínunnar.
Þeir réru einnig með þorskanet á Fram í vor og tók ég þessa mynd hér að ofan þegar þeir komu einn daginn með mokafla að landi.
Hér koma nokkrar myndir sem ég hef tekið af Helga en eins og gefur að skilja eru þær allar frá seinni tíð.


Trilla sú er Helgi Héðins réri lengst á hét Bjarki ÞH 271 (Heitir það enn á Sjóminjasafninu á Húsavík) og var smíðuð árið 1962 í Hafnarfirði.
Héðinn Maríusson faðir Helga lét smíða hann fyrir sig og nefndi Sæfara ÞH 271. Sæfari var fjögur tonn að stærð og búinn 25 hestafla Guldner vél. Í hann fór síðar Petter vél og önnur sömu gerðar leysti hana af hólmi. Að lokum var sett í hann 36 hestafla Bukh vél.
Helgi eignast bátinn 1976 og fær hann þá nafnið Bjarki ÞH 271 þar sem aðrir aðila reyndust eiga einkaleyfi á Sæfaranafninu.
Helgi réri Bjarka fram yfir aldamótin síðustu en gaf hann Sjóminjasafninu á Húsavík.


Feðgarnir Helgi og Héðinn að hreinsa grásleppunetin af Hreifa ÞH við bryggju.


Hákarlaskurður á bryggjunni 19. apríl 2015, Óðinn, Héðinn og Helgi við vinnu sína. Hákarlana verka þeir félagar síðan af sinni alkunnu snilld og þykir hann lostæti.

Ekki má gleyma Helguskúrnum á Húsavík, verbúð Helga sem er í sjálfu sér safn um gamla tíma. Þangað koma margir gestir og m.a litu forsetahjónin við þar í opinberri heimsókn til Norðurþings haustið 2017.


Að lokum óska ég Helga Héðins til hamingju með stórafmælið
Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri uplausn.
Flott samantekt hjá þér
Líkar viðLíkar við
Takk fyrir það Magnús.
Líkar viðLíkar við