
Hér kemur fyrsta myndin af þrem sem héngu saman í ramma uppi á vegg hjá afa mínum, Olgeir Sigurgeirssyni útgerðarmanni á Húsavík.
Hér sjáum við fyrsta bát þeirra Skálabrekkufeðga við bryggju á Húsavík. Njörð ÞH 44, sem þeir keyptu af Sigurbirni Sigurjónssyni ofl. í marsmánuði 1961. Á dekki Njarðar eru bræðurnir Sigurður og Hreiðar Olgeirssynir ásamt yngri bróður.
Sigurður og Hreiðar áttu útgerðina með föður sínum og síðar kom þriðji bróðirinn Jón inn í útgerðina.
Njörður var smíðaður á Akureyri árið 1925 af Antoni Jónssyni skipasmið. Báturinn var 10 brl. að stærð og hét upphaflega Reynir EA 434.
Á vef Árna Björns Árnasonar segir að báturinn hafi verið smíðaður fyrir Jón Kristjánsson, Akureyri sem átti bátinn í fimm ár.
Þar segir jafnframt:
Bátur þessi gekk á milli fjölda eiganda og bar ein sjö nöfn og sum oftar en einu sinni en með mismunandi einkennisstöfum. Þar sem gögnum ber ekki alfarið saman um á hvaða árum eignaskipti á bátnum áttu sér stað verður látið nægja að geta nafna hans í tímaröð.
Reynir ÍS-504, Flateyri.
Magnús RE-80, Reykjavík.
Sæfari BA-131, Flateyri og Patreksfirði.
Sægeir GK-308, Keflavík.
Sægeir KE-23, Keflavík.
Njörður NS-207, Hánefsstöðum.
Njörður ÞH-44, Húsavík.
Njörður EA-108, Akureyri.
Kolbeinsey EA-108, Akureyri.
Straumnes RE-108, Reykjavík.
Straumnes GK. Grindavík.
Kunnastur mun báturinn vera á Eyjafjarðarsvæðinu sem Njörður EA-108 og þá annars vegar í eigu Árna Ólafssonar, Akureyri og hinsvegar í eigu Guðmundar Haraldssonar, Akureyri.
Seinustu árin var báturinn notaður sem vinnubátur í Grindavík.
Báturinn hét Straumnes GK. er hann rak upp á Vatnsleysuströnd og var dæmdur ónýtur og tekinn af skrá 3. september 1985.
Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution