Karólína komin heim úr skverun

2760. Karólína ÞH 100. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2021.

Línubáturinn Karólína ÞH 100 kom til Húsavíkur í dag eftir um þriggja vikna slipp á Siglufirði.

Báturinn er eins og nýr á að líta en hann var sprautaður að utan sem innan auk þess sem farið var í vélina á honum.

Karólína er að verða 14 ára gömul og að sögn Hauks Eiðssonar skipstjóra og útgerðarmanns hafa þeir fiskað hátt í 9000 tonn á bátinn. Haukur og Örn Arngrímsson hafa verið á bátnum frá upphafi.

Karólína ÞH 100 er í eigu Doddu ehf. á Húsavík og var smíðuð hjá Samtak í Hafnarfirði. Af gerðinni Víkingur 1200.

Báturinn er 11,94 metrar að lengd, 4,18 metrar á breidd og mælist 14,92 BT að stærð.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Jeanette komin aftur

IMO 9357509. Jeanette ex Jeannette. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2021.

Flutningaskipið Jeanette kom til Húsavíkur í gærkveldi með hráefnisfarm fyrir kísilver PCC á Bakka.

Skipið var hér í júnímánuði sl. í sömu erindagjörðum og þá var veður svipað og í dag eins og sjá má hér.

Skipið var smíðað árið 2007 og bar nafnið Anet fyrstu tvö árin og síðan Jeannette í ár en frá árinu 2001 það nafn sem það ber á myndinni.

Skipið, sem siglir undir hollenskum fána, er 110 metra langt, breidd þess er 14 metrar og það mælist 3990 GT að stærð.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.

Mark fyrir utan Grindavík

IMO:9690688.  Mark ROS 777. Ljósmynd Jón Steinar Sæmundsson 2021.

Þýski frystitogarinn Mark kom upp að Grindavík í fyrrinótt, sennilega í þeim erindagjörðum setja menn í land.

Jón Steinar tók meðfylgjandi mynd og sagði m.a á síðu sinni: Hann kom hér upp að landinu úr vestri og hélt svo hér austur með eftir að hafa skilað af sér mönnunum.

Togarinn, sem er 84 metra langur og 16 metra breiður, var smíðað í Tersan skipasmíðastöðinni í Tyrklandi og afhent eigandanum, Parlevliet & Van der Plas group í júní 2015. Heimahöfn hans er í Rostock.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.