Freyja RE 38

1223. Freyja RE 38 ex Sigurborg ak 375. Ljósmynd Tryggvi Sigurðsson.

Freyja RE 38 hét upphaflega Sigurborg AK 375 og var smíðuð árið 1972 fyrir Þórð Guðjónsson útgerðarmann á Akranesi.

Báturinn, sem var 103 brl. að stærð og búinn 500 hestafla Alpha aðalvél, var smíðaður hjá Þorgeir & Ellert hf. á Akranes.

Árið 1980 fær báturinn nafnið sem hann ber á myndinni, Freyja RE 38. Þá voru höfð bátaskipti sem leiddu til þess að Gunnar I. Hafsteinsson eignaðist Sigurborgu og nefndi Freyju.

Freyjan sem fór upp á Skaga í staðinn fékk nafnið Sigurborg AK 375. Upphaflega Sveinn Sveinbjörnsson NK 55 frá Neskaupstað.

Freyja var seld til Noregs í lok árs 1987 en í hennar stað kom nýsmíði frá Noregi sem fékk nafnið Freyja RE 38.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Sædís ÞH 305

6195. Sædís ÞH 305 ex Lára ÞH 102. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2005.

Í gær voru fimmtíu ár síðan Guðmundur A. Hólmgeirsson ( Alli minn) kom siglandi á nýjum báti til Húsavíkur og hóf þar útgerð.

Báturinn sem um ræðir var nýsmíðaður 11 brl. bátur sem Alli og Helga Nína kona hans létu smíða í Bátalóni í Hafnarfirði. Hann fékk nafnið Aron ÞH 10 hefur það nafn fylgt útgerðinni allar götur síðan.

Stefán sonur þeirra hjóna gerir útgerðarsögunni góð skil á Fésbókarsíðu sinni. Útgerðin heitir Knarrareyri ehf. og gerir í dag út Aron ÞH 105 til grásleppuveiða ásamt strandveiðum á sumrin.

Í tilefni afmælisins birtist hér mynd af Sædísi ÞH 305 en það nafn hefur einnig fylgt fjölskyldunni lengi.

Á þessari mynd eru Alli og Helga Nína að sigla úr Flatey til Húsavíkur í júnímánuði árið 2005. Ef mér skjöplast ekki má sjá æskuheimili Alla, Grund, í bakgrunni myndarinnar. Rétt vestan við krókstjakann 🙂

Ég óska Alla, Helgu Nínu og fjölskyldu til hamingju með 50 ára útgerðarafmælið en Alli, sem verður 82 ára í ár, bíður nú þess að það viðri til grásleppuróðra.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution