
Þorkell Árnason GK 21 úr Garðinum er á þessum myndum sem teknar voru á mismunandi tímum að koma til hafnar í Sandgerði en þaðan var hann lengstum gerður út.
Báturinn var smíðaður í Dráttarbrautinni hf. í Neskaupsstað 1972 fyrir Hafölduna h/f á Eskifirði. Báturinn hét Hafalda SU 155 og var 65 brl. að stærð.
Árið 1974 var hann seldur suður í Garð og fékk hann þá nafnið Þorkell Árnason GK 21. Eigendur vorur Þórhallur og Ægir Frímannssynir, síðar Þorkell Árnason ehf.
Eitthvað var bátnum breytt í gegnum tíðina, yfirbyggður 1991 og þá væntanlega skipt um brú um leið. Þá var skipt um aðalvél 1984.
Árið 2007 var hann seldur til Dalvíkur þar sem hann hét um tíma Darri EA 32 og var gerður út af Dalorku ehf. á Dalvík.
Í ársbyrjun 2008 var báturinn kominn aftur í Garðinn þar sem hann fékk hann nafnið Ásta GK 262 og var í eigu Hafkletta ehf. en árið 2012 er Nesfiskur hf. skráður útgerðaraðili.
Ásta GK 262 fór í núllflokk á Fiskistofu 1. september 2014 en hvað varð um bátinn er spurning ?
Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution