
Erling KE 45 var gerður út rækju frá Húsavík hér áður fyrr og hér er hann að koma inn til löndunar. Eigandi skipsins var Saltver hf. í Keflavík.
Skipið var byggt árið 1969 hjá A/S Eidsvik Skipsbyggeri Uskedal Noregi. Hann hét upphaflega Stjernøysund og var með heimahöfn í Hammerfest.
Erling hét upphaflega Pétur Jóhannsson SH 207 á íslenskri skipaskrá, en skipið var keypt hingað til lands árið 1974 af Smára sf. í Ólafsvík.
Í árslok 1976 var skipip selt Höfn hf. á Siglufirði, nafn og númer óbreytt, og tæpu ári síðar kaupa Ingvi Rafn Albertsson skipstjóri, Askja hf. og Friðþjófur hf. á Eskifirði skipið og nefna hann Seley SU 10.
Það er svo haustið 1982 sem Saltver hf. kaupir Seleyna og fær skipið þá nafnið Erling. Erling var, eins og áður segir, smíðaður í Noregi 1969 og mældist þá 236 brl. að stærð. Í honum var 700 hestafla Wichmann aðalvél.
Hann var yfirbyggður 1977 og síðan lengdur 1986. Eftir lenginguna mældist hann 328 brl. að stærð. 1985 var sett í hann ný aðalvél, 1100 hestafla B & W Man. Heimild Íslensk skip.
Erling KE 45 sökk 11. desember 1990 eftir að hafa steytt á skerinu Borgarboða sem er skammt frá Hornafjarðarósnum. Þrettán skipverjar komust heilu og höldnu í gúmíbáta og þaðan yfir í Þorstein GK 16 hálftíma eftir að skip þeirra steytti á skerinu. Heimild Morgunblaðið 12. desember 1990.
Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution
Á þessu skipi var ég með öðlingnum Ynga Rafni 1979 og þar til að báturinn var seldur 1983 þann tíma hét hann Seley SU-10.Þetta var virkilega gott skip sem fór vel með sig undir farmi með sín 430 tonn en þá bar hún ekki meira.Þetta var skemtilegur tími með skemtilegum mönnum.
Líkar viðLíkar við