Aldan SI 85

411. Aldan SI 85 ex Brynja BA 48. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Aldan SI 85 er hér við bryggju á Siglufirði um árið en þaðan var báturinn gerður út á árunum 1972-1989. Myndin var tekin 1988 eða 1989.

Báturinn hét upphaflega Faxi EA 11 og var smíðaður á Akureyri árið 1962.

Dagur greindi svo frá miðvikudaginn 7. nóvember 1962:

Fyrir helgina var sjósettur nýr 15 tonna bátur í Sandgerðisbót á Akureyri. Smiðir tveir í bænum, Trausti Adamsson og Gunnlaugur Traustason byggðu hann að öllu því, er að trésmíðavinnu lýtur og voru um það bil eitt ár að ljúka því verki.

Teikninguna gerði Tryggvi Gunnarsson skipasmíðameistari.

Bátur þessi, sem sýnist vera hinn vandaðasti að öllum frágangi, er byggður úr eik og í honum er 137 hestafla Volvo-Penta-vél. í honum eru hin venjulegu siglinga- og öryggistæki.

Smiðirnir hafa selt bát þennan, sem Faxi heitir, og eru eigendur þeir Steingrímur Aðalsteinsson og Bjarni Þorvaldsson, báðir búsettir hér í bænum og munu gera hann út héðan fyrst um sinn.

Áður höfðu smiðirnir byggt 9 tonna bát. Þeir hafa nú komið sér upp bráðarbirgðaaðstöðu í Sandgerðisbótinni, en óvíst er ennþá hvort þeir halda bátasmíðinni áfram, að því er þeir tjáðu blaðinu á mánudaginn, er smíði bátsins bar á góma.  

Þeir Trausti og Adam hættu ekki að smíða báta og voru þeir þó nokkrir sem þeir áttu eftir að smíða. Þeirra síðastur Sæborg ÞH 55 sem afhent var árið 1977.

Aftur að Öldunni. Samkvæmt vef Árna Björns Árnasonar gerður þeir Steingrímur og Bjarni Faxa ekki lengi út því þeir seldu hann til Dalvíkur í ársbyrjun 1962.

Árið 1967 var báturinn seldur Stanley Axelssyni, Ísafirði og fékk hann þar nafnið Brynja ÍS-419. Hafbjörg hf. Flatey keypti bátinn árið 1968 og hét hann hjá því fyrirtæki Brynja BA-48 og var heimahöfn hans Flatey á Breiðafirði. 

Eigandaskipti urðu á bátnum án nafnbreitingar árið 1970 en það ár er Reynir Vigfússon, Reykjavík skráður eigandi en frá árinu 1971 er eigandi skráður Sigurbjörn Þorgrímsson, Reykjavík. 

Árið 1972 fór báturinn norður á Siglufjörð og fékk nafnið Aldan SI-85 og var í eigu Henriks og Guðlaugs Henningsen Siglufirði. Árið 1989 fór báturinn til Ísafjarðar og hét þar Aldan ÍS-47 og var þar í eigu Arnars Kristjánssonar o.fl. Ísafirði. Frá árinu 1992 hét báturinn Aldan ST-46 með heimahöfn á Drangsnesi. 

Frá og með árinu 1993 hét báturinn Örvar ST-155  og var þá í eigu Erlings Ómars Guðmundssonar.  Báturinn hét Örvar ST-155 með heimahöfn á Drangsnesi þegar hann var dæmdur ónýtur og tekinn af skipaskrá 13. desember 2000″ segir á heimasíðu Árna Björns.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Cleopatra 33 til gildruveiða á humri afgreidd til Skotlands

Golden Down FR 8. Ljósmynd Trefjar 2019.

Bátasmiðjan Trefjar í Hafnarfirði afgreiddi núna nýverið nýjan Cleopatra bát til Fraserburgh á norðausturströnd Skotlands.

Að útgerðinni stendur Gary Noble útgerðarmaður frá Fraserburgh.

Nýi báturinn hefur hlotið nafnið Golden Dawn.  Báturinn, sem er 10 brúttótonn að stærð,  er af gerðinni Cleopatra 33.

Aðalvél bátsins er af gerðinni FPT C90 tengd ZF 286IV gír. Siglingatæki koma frá Simrad/Furuno.  Báturinn er með uppsetta Olex skipstjórnartölvu. Hann einnig útbúin með vökvadrifinni bógskrúfu sem tengd er sjálfstýringu bátsins.

Báturinn er útbúinn til gildruveiða á humri og töskukrabba.  Reiknað er með að báturinn muni draga 1000 gildrur á dag.

Hluta ársins mun báturinn stundar makrílveiðar með handfærarúllum. Handfæra rúllur koma frá DNG.

Í fiskilest bátsins er sjálfvirkt sjóúðunarkerfi til að halda humri lifandi um borð.  Með þessu fyrirkomulagi fæst mun meira aflaverðmæti.

Öryggisbúnaður bátsins er frá Viking.

Rými er fyrir 12stk 380 lítra kör í lest.  Í vistarverum er, svefnpláss fyrir þrjá auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofn og ísskáp.

Að sögn útgerðarinnar mun báturinn verða gerður út frá Fraserburgh allt árið, báturinn hefur þegar hafið veiðar.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution