
Línu- og netaskipið Jökull ÞH 299 kom til löndunar á Húsavík í morgun. Jökull, sem er á netum og lagði þau að þessu sinni í Breiðafirði, var í sinni fyrstu veiðiferð þar sem verið var að prufa skipið og útbúnað þess.
Að sögn Gunnlaugs Karls Hreinssonar stjórnarformanns GPG gekk veiðiferðin vel og ágætur afli. Aðeins þarf þó að fínspússa nokkur atriði áður en haldið verður aftur til veiða í kvöld.
Jökull var smíðaður í Noregi árið 1996 og er 962 GT að stærð. Lengd hans er 44 metrar og breiddin 10 metrar.
Hann hét áður Nanoq og var gert út af Arctic Prime Fisheries til veiða við Grænland. GPG Seafood keypti skipið á síðasta ári og er heimahöfn þess Raufarhöfn.
Í viðtali við Gunnlaug Karl í Morgunblaðinu á dögunum kom m.a fram að á síðastliðnu ári hefur verið skipt um aðalvél og ljósavélar í skipinu og ýmislegt annað sem vélaskiptunum fylgir.
Þá var skipt um kælimiðil, farið úr freon yfir í glycol, og fyrir um tveimur árum var stál í skipinu endurnýjað. Síðustu mánuði hefur verið unnið að ýmsum endurbótum á skipinu í Hafnarfirði.
Í veiðiferðinni nú er öðrum þræði verið að fínstilla búnað. Frystivélar eru um borð í Jökli, en fyrst í stað að minnsta kosti verður hráefnis aflað fyrir fiskvinnslu í landi.
Áhöfnin á Herði Björnssyni ÞH 260 fór yfir á Jökul, en Herði verður lagt við bryggju næstu mánuði. Ákvörðun um framhaldið liggur ekki fyrir að sögn Gunnlaugs. Hörður Björnsson ÞH var upphaflega smíðaður í Noregi 1964. Segir í Morgunblaðinu en eins og margir vita hét hann upphaflega Þórður Jónasson.
Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution