
Skuttogarinn Múlaberg ÓF 22 kom til Húsavíkur í morgun þeirra erinda að ná í nýtt rækjutroll sem sett var upp hjá Ísfelli.
Múlaberg, sem er annar svokallaðra tvegga Japanstogaranna sem enn eru í útgerð á Íslandi, er í eigu Ramma hf. í Fjallabyggð.
Togarinn hét upphaflega Ólafur Bekkur ÓF 2, hann var smíðaður í Japan fyrir Útgerðafélag Ólafsfjarðar hf. og kom í fyrsta skipti til heimahafnar þann 8. maí árið 1973.
„Þetta er sjöunda systurskipið, sem byggt er í Japan fyrir íslendinga, og jafnframt það fjórða og síð- asta frá Niigata skipasmíðastöðinni. Skipið er eignútgerðarfélags Ólafsfirðinga, en það félag stofnuðu Hraðfrystihús Ólafsfjarðar, Hraðfrystihús Magnúsar Gamalíelssonar og Ólafsfjarðarbær um togarann til að afla hráefnis fyrir frystihúsin“. Segir m.a í Ægi um komu togarans til landsins.
Japanstogararnir voru 461 brl. að stærð og voru búnir 2000 hestafla Niigataaðalvélum.
Árið 1987 fór Ólafur Bekkur til Póllands í breytingar sem fóru fram í Nauta skipasmíðastöðinni í Gdynia í Póllandi.
„Helstu þættir í endurbyggingunni voru að skipið var lengt um 6,6 metra, skipt var um aðalvél, sett var perustefni á skipið og hliðarskrúfa, skipt var einnig um gír- og skrúfubúnað, skipt um stýrisvél, skipt um öll hjálparspil og síðast en ekki síst settur svokallaður Auto-troll búnaður um borð.
Þá var skipt um brú á skipinu og flest tæki í brúnni endurnýjuð. Þetta eru þeir þættir sem mestu skiptir þótt fleiri endurbætur mætti til telja“. Dagur 19. október 1987.
Eftir breytingarnar mældist togarinn 550 brl. að stærð og nýja aðalvélin 1397 Kw Niigata.
Sæberg hf. á Ólafsfirði eignaðist Ólaf Bekk ÓF 2 í lok árs 1990 og í janúarmánuði árið 1991 fékk hann nafnið Múlaberg ÓF 32.
Árið 1997 varð svo Múlabergið SI 22 eigandi Þormóður Rammi/Sæberg en eigandi þess í dag er Rammi hf. í Fjallabyggð.
Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution