
Sjöstjarnan VE 92 hét upphaflega Ingiber Ólafsson GK 35 og var báturinn smíðaður árið 1961 í Skipasmíðastöð Marsellíusar Bernharðssonar hf. á Ísafirði.
Báturinn sem var 83 brl. að stærð var smíðaður fyrir Jón og Óskar Ingiberssyni í Keflavík og bar hann nafn föður þeirra.
Árið 1965 fékk nafnið báturinn nafnið Eyfellingur VE 206 en í Vestmannaeyjum var hann til ársins 1970. Þá var hann seldur aftur til Keflavíkur þar sem hann fékk nafnið Pólstjarnan KE 9.
Árið 1973 kaupir Ríkissjóður Íslands bátinn fyrir Hafrannsóknarstofnun og fær hann nafnið Dröfn RE 35. Síðar RE 135 eftir að nýrri og stærri Dröfn leysti hann af hólmi.
Á einhverjum tímapunkti var báturinn endurmældur og mældist 75 brl. að stærð eftir það.
Haraldur Traustason í Vestmannaeyjum kaupir bátinn vorið 1989 og fær hann þá nafnið Sjöstjarnan VE 92 en hann leysti af hólmi eldri og minni bát með því nafni.
Sjöstjarnan VE 92 fórst í netaróðri norður af Elliðaey við Vestmannaeyjar 20. mars 1990. Með henni fórst einn maður en fimm komust í gúmmíbjörgunarbát og þaðan um borð í Lóðsinn frá Vestmannaeyjum.
Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution