
Hvanney SF 51 frá Hornafirði er hér í slipp á Akureyri um árið og það var Frosti ÞH 220 líka. Auk þess má sjá glitta í Ársæl EA 74.
Hvanney SF 51 var smíðuð hjá Vélsmiðju Seyðisfjarðar árið 1975 en eigandi bátsins var Borgey hf. á Höfn í Hornafirði. Hún var 99 brl. að stærð en eftir endurmælingu árið 1981 mældist hún 101 brl. að stærð. Í henni var 425 hestafla Caterpillar aðalvél. 705 hestafla Caterpillar leysti hana af hólmi árið 1987.
Í nóvember 1987 fór báturinn í breytingar hjá Slippstöðinni á Akureyri en þar var báturinn m.a yfirbyggður og lengdur um þrjá metra. Hann kom úr þessum breytingum í janúar 1988 en eftir þær mældist hann 115 brl. að stærð.
Hvanney SF 51 var í flota Hornfirðinga til ársins 2004 er hún var seld til Ólafsvíkur þar sem hún fékk nafnið Guðmundur Jensson SH 717.
Frá árinu 2014 hefur báturinn heitið Markús SH 271, Markús HF 177, Markús KE 177, Klettur MB 8 og Klettur ÍS 808 en það nafn hefur hann borið frá árinu 2017.
Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution.