Sylvía sumarið 2007

1468. Sylvía ex Björgvin ÍS 468. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2007.

Þessar myndir sem nú birtast af hvalaskoðunarbátnum Sylvíu tók ég 19. júlí árið 2007.

Sylvía var smíðuð í Bátasmiðjunni Vör hf. á Akureyri 1976 fyrir Grenvíkinga og hét upphaflega Sigrún ÞH 169.

Í sumarbyrjun 2007 kaupir hvalaskoðunarfyrirtækið Gentle Giants á Húsavík bátinn frá Þingeyri og eftir breytingar í Slippstöðinni á Akureyri hóf hann hvalaskoðunarsiglingar um sumarið á Skjálfanda og gerir enn. Sylvía er 29 brl. að stærð.

1468. Sylvía ex Björgvin ÍS 468. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2007.

Mig minnir að ég hafi farið með Stefáni Guðmundssyni á einhverju fleyi til að mynda Sylvíu. Aðalsteinn Ólafsson er þarna við skipsstjórn á Sylvíu.

1468. Sylvía ex Björgvin ÍS 468. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2007.

Eins og fyrr segir hét báturinn upphaflega Sigrún ÞH 169 og var í eigu Sævars h/f á Grenivík. 1978 er hann seldur til Siglufjarðar þar sem hann fær nafnið Rögnvaldur SI 77. Haustið 1980 er hann seldur til Reykjavíkur þar sem hann fékk nafnið Reykjaborg RE 25.

Reykjaborg fær nafnið Von BA 33 1998, ári síðar heitir hann Hrímnir ÁR 51 með heimahöfn á Eyrarbakka. Í apríl árið 2003 fær hann nafnið Harpa GK 40 og árið 2005 fær hann nafnið Björgvin ÍS 468. Það er svo snemma sumars 2007 sem hann fær nafnið Sylvía sem hann ber enn þann dag í dag.

1468. Sylvía ex Björgvin ÍS 468. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2007.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

Herjólfur kemur til Vestmannaeyja í gær

Herjólfur. Ljósmynd Hólmgeir Austfjörð 2019.

Þessar myndir tók Hólmgeir Austfjörð í gær þegar Herjólfur kom til hafnar í Vestmannaeyjum.

Herjólfur. Ljósmynd Hólmgeir Austfjörð 2019.

Herjólfur hefur verið heiti á þremur ferjum sem gengið hafa á milli Heimaeyjar í Vestmannaeyjum og Þorlákshafnar, og seinna meir Landeyjahafnar. Núverandi Herjólfur, sá þriðji í röðinni, gengur á milli Vestmannaeyja og Landeyjarhafnar. Hann var tekinn í notkun árið 1992, og var þar um að ræða margfalt stærra og hraðaskreiðara skip en það sem á undan gekk. Hann tekur um 60 fólksbíla og allt að 388 farþega. Herjólfur er gerður út af Eimskipum, einu stærsta skipafélagi landsins. Herjólfur er eina skip Eimskipa sem er skráð á Íslandi. Wikipedia.is

Herjólfur. Ljósmynd Hólmgeir Austfjörð 20119

Herjólfur var smíðaður í Flekkefjørd í Noregi 1992. Innan tíðar mun nýr Herjólfur sem er í smíðum í Póllandi leysa þennan af hólmi.

Herjólfur. Ljósmynd Hólmgeir Austfjörð 2019.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

Ný Cleopatra 40 til Skotlands

Soph-Ash-Jay 3. Ljósmynd Trefjar.is 2019.

Bátasmiðjan Trefjar í Hafnarfirði afrgreiddi núna nýverið nýjan Cleopatra bát til Burnmouth á austurströnd Skotlands.

Að útgerðinni stendur John Affleck sjómaður frá Burnmouth sem jafnframt er skipstjóri á bátnum.

Nýi báturinn hefur hlotið nafnið Soph-Ash-Jay-3 og er 15brúttótonn.  Soph-Ash-Jay-3 er af gerðinni Cleopatra 40 og er fjórði báturinn sem Trefjar afhenda útgerðinni.

Einn af eldri bátum útgerðarinnar Cleopatra 40 sem útgerðin fékk afhendann 2017 verður áfram í rekstri.  Nýi báturinn mun leysa af hólmi eldri og Cleopatra 38 bát frá 2008.

Aðalvél bátsins er af gerðinni FPT C13 650hp tengd ZF 325IV gír.

Báturinn er útbúinn 17kW rafstöð af gerðinni Scam/Kubota.  Siglingatæki koma frá Simrad.  Báturinn er með uppsettar Olex og MaxSEA skipstjórnartölvur.

Hann einnig útbúin með vökvadrifnum skut og bógskrúfum sem tengd er sjálfstýringu bátsins.  Í bátnum er andvelti gýrókúla.

Báturinn er útbúinn til gildruveiða á humri og töskukrabba.  Reiknað er með að báturinn muni draga 1000gildrur á dag.

Í fiskilest bátsins er sjálfvirkt sjóúðunarkerfi til að halda humri lifandi um borð.  Með þessu fyrirkomulagi fæst mun meira aflaverðmæti.

Öryggisbúnaður bátsins er frá Viking.

Rými er fyrir 17stk 380lítra kör í lest.  Í vistarverum er, svefnpláss fyrir þrjá til fjóra auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofn og ísskáp.

Að sögn útgerðarinnar mun báturinn verða gerður út frá Burnmouth allt árið, báturinn hefur þegar hafið veiðar.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.