Hildur, Andvari og Sæborg

1354. Hildur ex Héðinn HF 28. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Hildur var byggð á Akureyri árið 1974 á Bátaverkstæði Gunnlauga og Trausta. Hét upphaflega Múli ÓF 5. 

Norðursigling keypti bátinn síðla sumars 2009 og um haustið var henni siglt til Engernsund í Danmörku.

Þar var henni breytt í tveggja mastra skonnortu með bugspjóti. Hildur kom aftur til Húsavíkur um mitt sumar 2010 og hóf siglingar. Hún hefur síðan siglt með farþega við Íslands-, Grænlands- og Noregsstrendur.

Hildur er 36 brl. að stærð.

1438. Andvari ex Salka GK 79. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Andvari var smíðaður á Bátaverkstæði Gunnlaugs og Trausta á Akureyri 1975 og hét upphaflega Vinur SH 140.

Norðursigling eignaðist bátinn árið 2012 en hann hafði sokkið eftir að siglt var á hann við bryggju í Sandgerði haustið 2011.

Bátnum var náð á flot og upp í slipp þar sem allt var rifið af honum ofan þilfars og ekkert beið hans nema förgun.

Vorið 2012 dró Knörrinn Sölku norður til Húsavíkur og rúmum fjórum árum síðar hóf hann siglingar á Skjálfanda eftir að hafa verið endurbyggður sem rafknúinn hvalaskoðunarbátur.

Andvari er 30 brl. að stærð.

1475. Sæborg ex Áróra. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Sæborg var smíðuð á Bátaverkstæði Gunnlaugs og Trausta á Akureyri árið 1977 fyrir Húsvíkinga. 

Hét upphaflega Sæborg ÞH 55 og var gerð út frá Húsavík til ársins 1991 er hún var seld.

Norðursigling keypti bátinn vorið 2016 en þá hafði hann verið gerður út um tíma til siglinga með ferðamenn frá Reykjavík undir nafninu Áróra.

Sæborg er 40 brl. að stærð.

Heimildir eru m.a fengnar af vefnum aba.is, heimasíðum hvalaskoðunarfyrirtækjanna og úr Íslenskum skipaskrám.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Fanney og Salka

1445. Fanney ex Siggi Þórðar GK 197. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Fanney ÞH 130 var smíðuð í Slippstöðinni á Akureyri árið 1976 fyrir Húsvíkinga en þaðan var báturinn gerður út til ársins 1997. 

Sölkusiglingar ehf. keyptu bátinn aftur til Húsavíkur síðla árs 2012 en þá hafði honum verið breytt til farþegaflutninga.

Hann fékk aftur sitt gamla nafn, Fanney, og hóf siglingar með ferðamenn á Skjálfanda vorið 2013.

1470. Salka ex Pétur afi SH 374. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Salka var smíðuð í Skipasmíðastöðinni Dröfn h.f í Hafnarfirði árið 1976 og hét upphaflega Hafsúlan SH 7. 

Sölkusiglingar ehf. á Húsavík eignuðust bátinn haustið 2016 og var hann gerður var upp í Skipavík í Stykkishólmi um veturinn.

Salka hóf hvalaskoðunarsiglingar frá Húsavík í sumarbyrjun 2017. 

Heimildir eru m.a fengnar af vefnum aba.is, heimasíðum hvalaskoðunarfyrirtækjanna og úr Íslenskum skipaskrám.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Faldur og Sylvía

Faldur ex Faldur ÞH 153. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Faldur hét upphaflega Votaberg ÞH 153 og var smíðaður hjá Skipaviðgerðum hf. í Vestmannaeyjum fyrir útgerðarmann á Þórshöfn árið 1973. 

Í lok sama árs var hann seldur innanbæjar á Þórshöfn og fékk nafnið Faldur ÞH 153.

Sumarið 2001 var hann keyptur til Húsavíkur og veturinn þar á eftir notaður til að breyta honum í hvalaskoðunarbát.

Faldur hóf hvalaskoðunarsiglingar á vegum Gentle Giants sumarið 2002 og er enn að. Faldur er 18 brl. að stærð.

1468. Sylvía ex Björgvin ÍS 468. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Sylvía var smíðuð í Bátasmiðjunni Vör hf. á Akureyri 1976 fyrir Grenvíkinga og hét upphaflega Sigrún ÞH 169.

Í sumarbyrjun 2007 kaupir hvalaskoðunarfyrirtækið Gentle Giants á Húsavík bátinn frá Þingeyri og eftir breytingar í Slippstöðinni á Akureyri hóf hann hvalaskoðunarsiglingar um sumarið á Skjálfanda og gerir enn.

Sylvía er 29 brl. að stærð.

Heimildir eru m.a fengnar af vefnum aba.is, heimasíðum hvalaskoðunarfyrirtækjanna og úr Íslenskum skipaskrám.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Knörrinn, Haukur og Náttfari

306. Knörrinn ex Hrönn EA 258. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Knörrinn var smíðaður í Slippstöðinni á Akureyri árið 1963 og hét upphaflega Auðunn EA 157 með heimahöfn í Hrísey.

Eftir að hafa verið gerður út til fiskveiða í rúm 30 ár eignaðist Norðursigling ehf. á Húsavík bátinn og breytti honum í hvalskoðunarbát. Knörrinn hóf siglingar vorið 1995 og siglir enn. Báturinn er 19 brl. að stærð.

1292. Haukur ex Haukur ÍS 195. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Haukur var smíðaður í Skipasmíðastöð Jóns Jónassonar við Elliðaárvog í Reykjavík árið 1973 og hét upphaflega Sigurður Baldvin KE 22. Sama ár var hann seldur vestur á firði þar sem hann fékk núverandi nafn.

Norðursigling keypti hann árið 1996 og sumarið á eftir hóf hann hvalaskoðunarsiglingar frá Húsavík. Árið 2002 var honum breytt í tveggja mastra skonnortu með bugspjóti. Haukur er 19 brl. að stærð.

993. Náttfari ex Byrefjell. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Náttfari var smíðaður í Skipavík í Stykkishólmi árið 1965 og hét upphaflega Þróttur SH 4.

Þróttur, sem var fyrsti báturinn sem Skipavík smíðaði, hét ýmsum nöfnum í gegnum tíðina en Norðursigling keypti bátinn árið 1998. Þá hafði hann legið um árabil í reiðuleysi austur á fjörðum.

Náttfari hóf síðan hvalaskoðunarsiglingar sumarið 1999. Náttfari er 60 brl. að stærð.

Heimildir eru m.a fengnar af vefnum aba.is, heimasíðum hvalaskoðunarfyrirtækjanna og úr Íslenskum skipaskrám.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Öðluðust nýjan tilgang í hvalaskoðun

1475. Sæborg og 1470. Salka sigla inn og út. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2018.

Í vetur birtist í 200 mílum, sérblaði Morgunblaðsins um sjávarútveg, myndir af hvalaskoðunarbáum frá Húsavík.

Með fylgdi texti sem ég setti saman um bátana en um var að ræða fiskibáta sem smíðaðir voru á Íslandi en þeir eru ellefu talsins.

Allt eru þetta eikarbátar og eru fyrirtækin þrjú sem gera þá út. Tólfti fiskibáturinn sem er í hvalaskoðunarflotanum á Húsavík er Garðar, áður Sveinbjörn Jakobsson SH 10, sem smíðaður var í Danmörku árið 1963.

Þessir bátar voru smíðaðir í Stykkishólmi, Hafnarfirði, Vestmannaeyjum, Reykjavík og Akureyri þar sem sjö þeirra voru smíðaðir.

Á Akureyri voru það fjórar bátasmiðjur sem smíðuðu bátana, Slippstöðin, Bátaverkstæði Gunnlaugs og Trausta, Bátasmiðjan Vör og Skipasmíðastöð KEA.

Elsti báturinn var smíðaður 1963 og sá yngsti 1977 en 8. áratugurinn var blómaskeið innlendra bátasmíða. Bátarnir frá Akureyri voru allir nema einn smíðaðir fyrir útgerðir við Eyjafjörð og á Húsavík.  

Hvalaskoðunarfyrirtækin eru Norðursigling, sem reið á vaðið 1995 þegar Knörrinn hóf siglingar á Skjálfanda, Gentle Giants sem hóf starfsemi árið 2001 og Sölkusiglingar sem byrjaði siglingar vorið 2013. 

Næstu daga munu birtast myndir af þessum bátum og textinn um þá.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Húni II

108. Húni II ex Sigurður Lárusson SF 114. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2010.

Húni II lætur hér úr höfn á Húsavik 16. júní árið 2010.

Húni II var smíðaður í skipasmíðastöð KEA á Akureyri árið 1963 og hét upphaflega Húni II HU 2 frá Höfðakaupstað.

Tryggvi Gunn­ars­son, skipa­smíðameist­ari, teiknaði Húna II. 

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.

Sylvía sumarið 2007

1468. Sylvía ex Björgvin ÍS 468. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2007.

Þessar myndir sem nú birtast af hvalaskoðunarbátnum Sylvíu tók ég 19. júlí árið 2007.

Sylvía var smíðuð í Bátasmiðjunni Vör hf. á Akureyri 1976 fyrir Grenvíkinga og hét upphaflega Sigrún ÞH 169.

Í sumarbyrjun 2007 kaupir hvalaskoðunarfyrirtækið Gentle Giants á Húsavík bátinn frá Þingeyri og eftir breytingar í Slippstöðinni á Akureyri hóf hann hvalaskoðunarsiglingar um sumarið á Skjálfanda og gerir enn. Sylvía er 29 brl. að stærð.

1468. Sylvía ex Björgvin ÍS 468. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2007.

Mig minnir að ég hafi farið með Stefáni Guðmundssyni á einhverju fleyi til að mynda Sylvíu. Aðalsteinn Ólafsson er þarna við skipsstjórn á Sylvíu.

1468. Sylvía ex Björgvin ÍS 468. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2007.

Eins og fyrr segir hét báturinn upphaflega Sigrún ÞH 169 og var í eigu Sævars h/f á Grenivík. 1978 er hann seldur til Siglufjarðar þar sem hann fær nafnið Rögnvaldur SI 77. Haustið 1980 er hann seldur til Reykjavíkur þar sem hann fékk nafnið Reykjaborg RE 25.

Reykjaborg fær nafnið Von BA 33 1998, ári síðar heitir hann Hrímnir ÁR 51 með heimahöfn á Eyrarbakka. Í apríl árið 2003 fær hann nafnið Harpa GK 40 og árið 2005 fær hann nafnið Björgvin ÍS 468. Það er svo snemma sumars 2007 sem hann fær nafnið Sylvía sem hann ber enn þann dag í dag.

1468. Sylvía ex Björgvin ÍS 468. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2007.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

Donna Wood í Øfjord

Donna Wood. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2017.

Donna Wood siglir hér út Øfjord í Scoresby sem umlukinn er háum fjöllum á báða vegu. Hæsti tindurinn 1800 metrar minnir mig.

Fékk upplýsingar um að fjallið Grundvigskirken er 1882 metrar  en lengra frá sjó eru þrír tindar yfir 2000 metrar, sá hæsti 2220 metrar.

Donna Wood. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2017.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í stærri upplausn.

Jólalegt við Húsavíkurhöfn

Húsavík að kveldi 5. desember. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2018.

Það var jólalegt um að litast við Húsavíkurhöfn í vikunni þegar seríurnar voru komnar upp á bátum Gentle Giants þar sem þeir liggja við flotbryggju.

Við Húsavíkurhöfn að kveldi 5. desember 2018. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í stærri upplausn.

Bjössi Sör í slipp

1417. Bjössi Sör ex Breiðdælingur SU 62. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2018.

Tók þessa mynd í kvöld af hvalaskoðunarbátnum Bjössa Sör prýddum jólaljósum í slippnum á Húsavík

Bjössi Sör hefur verið í vélarskiptum undanfarið en hann var ekki í notkun á síðustu hvalaskoðunarvertíð Norðursiglingar. Á bak við hann í dráttarbrautinni er skonnortan Haukur.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í stærri upplausn.