
Þessar myndir sem nú birtast af hvalaskoðunarbátnum Sylvíu tók ég 19. júlí árið 2007.
Sylvía var smíðuð í Bátasmiðjunni Vör hf. á Akureyri 1976 fyrir Grenvíkinga og hét upphaflega Sigrún ÞH 169.
Í sumarbyrjun 2007 kaupir hvalaskoðunarfyrirtækið Gentle Giants á Húsavík bátinn frá Þingeyri og eftir breytingar í Slippstöðinni á Akureyri hóf hann hvalaskoðunarsiglingar um sumarið á Skjálfanda og gerir enn. Sylvía er 29 brl. að stærð.

Mig minnir að ég hafi farið með Stefáni Guðmundssyni á einhverju fleyi til að mynda Sylvíu. Aðalsteinn Ólafsson er þarna við skipsstjórn á Sylvíu.

Eins og fyrr segir hét báturinn upphaflega Sigrún ÞH 169 og var í eigu Sævars h/f á Grenivík. 1978 er hann seldur til Siglufjarðar þar sem hann fær nafnið Rögnvaldur SI 77. Haustið 1980 er hann seldur til Reykjavíkur þar sem hann fékk nafnið Reykjaborg RE 25.
Reykjaborg fær nafnið Von BA 33 1998, ári síðar heitir hann Hrímnir ÁR 51 með heimahöfn á Eyrarbakka. Í apríl árið 2003 fær hann nafnið Harpa GK 40 og árið 2005 fær hann nafnið Björgvin ÍS 468. Það er svo snemma sumars 2007 sem hann fær nafnið Sylvía sem hann ber enn þann dag í dag.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.