Húsvíkurbátar á vertíð

1420.Kristbjörg ÞH 44 í Þorlákshöfn 1982. Ljósmynd Hreiðar Olgeirsson.

Á árunum 1982-1987 fóru bátar frá Húsavík á vertíð í Breiðafjörðinn og 1982 var Skálaberg ÞH 244 í Þorlákshöfn.

Kristbjörg ÞH 44 var einn þessara báta sem var í Ólafsvík 1982. Eftir páskana var farið suður fyrir ásamt Geira Péturs ÞH 344 og Sigþóri ÞH 100 og landað í Þorlákshöfn.

Þar var margt um bátinn eins og sjá má á þessari mynd hér að ofan. Þarna liggur Kristbjörgin á milli Sæbjargar ST 7 frá Hólmavík og Jósefs Geirs ÁR 36. Innstur er Bjarnarvík ÁR 13. Aftan við Sæbjörgina er Jón Helgason ÁR 12.

Bátar við bryggju í Ólafsvík. Ljósmynd Hreiðar Olgeirsson 1982.

Á neðri myndinni liggja Húsavíkurbátarnir Geiri Péturs ÞH 344 og Sigþór ÞH 100 við bryggju í Ólafsvík. Aftan við þá er Fróði SH 15 en Húsavíkurbátarnir lönduðu hjá Hróa h/f sem átti Fróða.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

Rán HF 42

2182. Rán HF 42 ex Ottó Wathne NS 90. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Frystitogarinn Rán HF 42 er hér að leggja upp í veiðiferð um árið.

Smíðaður í Vigó á Spáni 1990 (1991 segir sum staðar) fyrir Norðmenn og hét upphaflega Grinnøy.

Keyptur til Seyðisfjarðar 1992 og kom fyrst til nýrrar heimahafnar 25. ágúst. Togarinn fékk nafnið Ottó Wathne NS 90 og var í eigu samnefnds fyrirtækis. 

Stálskip í Hafnarfirði kaupir togarann snemma árs 1994 og fær hann þá nafnið Rán HF 42.

Árið 2005 fær hann svo núverandi nafn, sem er Baldvin Njálsson GK 400, þegar Nesfiskur í Garði kaupir togarann.

2182. Rán HF 42 ex Ottó Wathne NS 90. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

Grásleppukarlar á Húsavík vorið 1981

Jósteinn Finnbogason og Héðinn Maríusson. Ljósmynd Hreiðar Olgeirsson 1981.

Hér koma nokkrar myndir sem Hreiðar Olgeirsson á Húsavík tók vorið 1981 þegar grásleppukarlar voru að komnir að landi og voru að landa.

Þetta voru þeir Jósteinn Finnbogason á Hafdísi ÞH 12 og Héðinn Maríusson á Hreifa ÞH 77.

Héðinn Maríusson um borð í báti sínum. Ljósmynd Hreiðar Olgeirsson 1981.
Guðmundu G. Halldórsson og Einar Jónsson. Ljósmynd Hreiðar Olgeirsson 1981.

Guðmundur hrognakaupmaður á Kvíslarhóli kom til að athuga aflabrögð og það gerði Einsi frá Móbergi líka.

Vor við Húsavíkurhöfn 1981. Ljósmynd Hreiðar Olgeirsson 1981.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

Kristrún RE 177

256. Kristrún RE 177 ex Albert Ólafsson KE 39. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Línubáturinn Kristrún RE 177 kemur hér til hafnar í Reykjavík um árið.

Upphaflega hét báturinn Ólafur Friðbertsson ÍS 34 frá Súgandafirði, smíðaður Flekkefjord í Noregi 1964.

Síðar Albert Ólafsson KE 39 og um tíma HF 39. Aftur KE 39 og síðan þetta nafn sem hann ber á myndinni.

Eftir að ný Kristrún var keypt til landsins árið 2008  varð þessi Kristrún II RE 477. Fór í pottinn 2014.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.