
Stjórnir Ísfélags Vestmannaeyja hf. og Ramma hf. í Fjallabyggð hafa skrifað undir samkomulag um samruna félaganna. Sameinað félag mun heita Ísfélagið hf.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem félögin sendu frá sér í kvöld.
Forsvarsmenn félaganna tveggja eru sammála um að mörg tækifæri séu í fólgin í sameiningu Ísfélags Vestmannaeyja hf. og Ramma hf., m.a. til sóknarfæra og til að styrkja rekstrargrundvöll þeirra til framtíðar.
Heildaraflahlutdeild sameinaðs félags verður tæplega 8% af úthlutuðu aflamarki. Samanlögð velta félaganna var um 28 milljarðar króna á árinu 2021. Sameinað fyrirtæki verður betur í stakk búið til að takast á við áskoranir og tækifæri í rekstri og styrkir samkeppnisstöðu þess á alþjóðlegum mörkuðum. Stjórnir félaganna eru sammála um að stefnt skuli að því að skrá sameinað félag, Ísfélagið hf., á hlutabréfamarkað sem veitir tækifæri til frekari vaxtar.
Ísfélag Vestmannaeyja hf. gerir út fjögur uppsjávarskip, tvö bolfiskskip og einn krókabát. Félagið er með starfsstöðvar í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn og rekur frystihús og fiskimjölsverksmiðju á báðum stöðum.
Rammi hf. gerir út fjögur fiskiskip frá Fjallabyggð og Þorlákshöfn og starfrækir fiskvinnslu í Þorlákshöfn og rækjuverksmiðju í Fjallabyggð. Dótturfélög Ramma hf. eru sjávarlíftæknifélagið Primex hf., sem rekur kítósanverksmiðju á Siglufirði og Arctic Seafood Ltd. sem er sölufyrirtæki Ramma í Bretlandi.
Stærstu hluthafar sameinaðs félags verða: ÍV fjárfestingarfélaga ehf., Marteinn Haraldsson ehf., Gunnar Sigvaldason, Svavar Berg Magnússon og munu fara með samtals 83%.
Ráðgert er að Stefán Friðriksson, núverandi framkvæmdastjóri Ísfélags Vestmannaeyja hf., stýri hinu sameinaða félagi, með aðsetur í Vestmannaeyjum og Ólafur H. Marteinsson, núverandi framkvæmdastjóri Ramma hf., verði aðstoðarframkvæmdastjóri með aðsetur í Fjallabyggð.
Skrifað er undir samkomulagið með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins og hluthafafunda félaganna.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution