
Tappatogarinn Björgvin EA 311 er hér á mynd Hannesar Baldvinssonar koma að landi á Siglufirði.
Björgvin var smíðaður í Stralsund í A- Þýskalandi 1958 og kom til heimahafnar á Dalvík á Þorláksmessu það ár.
Í Alþýðumanninum sem gefinn var út á Akureyri birtist eftirfarandi frétt þann 30. desember 1958:
Á Þorláksdag kom til Dalvíkur nýtt togveiðiskip, Björgvin EA 311, eitt hinna 12 austur-þýzku 250 lesta fiskiskipa, er nú eru að koma hingað til landsins. Er Björgvin hið 3. þeirra skipa í röðinni.
Áður höfðu Guðmundur Péturs ÍS 1 komið til Bolungarvíkur og Sigurður Bjarnason EA 450 hingað. Björgvin er að öllu leyti samskonar skip og Sigurður Bjarnason, og vísast til lýsingar hans hér á öðrum stað í blaðinu.
Aðaleigendur Björgvins eru Sigfús Þorleifsson, útgerðarmaður, Dalvík, og Björgvin Jónsson, skipstjóri, Dalvík, er sigldi skipinu upp.
Kom skipið hingað til Akureyrar á Þorláksdagsmorgun erlendis frá, en hélt síðan samdægurs til heimahafnar sinnar, Dalvíkur.
Björgvin EA var í eigu Útgerðarfélags Dalvíkur frá septembermánuði 1959 og allt til ársins 1973 er hann var seldur til Suðureyrar.
Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution.