
Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á v/s Tý tók þessar myndir af Einari Guðnasyni ÍS 303 á strandstað við Gölt í mynni Súgandafjarðar.
Einar Guðnason ÍS 303 var að koma úr línuróðri skömmu fyrir miðnætti í 13. nóvember þegar strandið varð. Þyrla Landhelgisgæslunnar , TF-Eir, bjargaði áhöfninni.
Á vef Landhelgisgæslunnar segir svo frá:
Rúmlega tuttugu tonna fiskibátur strandaði við Gölt á utanverðum Súgandafirði í kvöld. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarkall frá bátnum klukkan 22:00 en fjórir voru um borð. TF-EIR, þyrla Landhelgisgæslunnar var þegar í stað kölluð út sem og björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á norðanverðum vestfjörðum.
Báturinn skorðaðist fljótlega á milli kletta og braut nokkuð á honum. Hægur vindur var á svæðinu og þónokkur alda.
Ekki reyndist unnt fyrir björgunarskip að komast nálægt strandstað frá sjó sökum brims og voru björgunarsveitir þá sendar landleiðina frá norðanverðum Súgandafirði.
TF-EIR, þyrla Landhelgisgæslunnar, kom á vettvang klukkan 23:42 og áhöfn hennar hófst þegar handa við að bjarga skipverjunum fjórum um borð í þyrluna. Á miðnætti var búið að bjarga mönnunum, heilum á húfi, um borð í þyrluna. Þeir voru fluttir til Ísafjarðar.
Varðskipið Týr er væntanlegt á strandsstað í fyrramálið og verða aðstæður skoðaðar með tilliti til þess hvort hægt verði að ná bátnum af strandsstað.
Það er skemmst frá því að segja að bátnum varð ekki bjargað af strandstað og er þetta mikið högg fyrir atvinnulífið á Suðureyri. Báturinn, sem var í eigu Norðureyrar ehf., var burðarásinn rekstri fyrirtækisins.

Einar Guðnason ÍS 303, sem var smíðaður árið 2015 og hét upphaflega Indriði Kristins BA 751, var keyptur til Suðureyrar í fyrra.
Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution