
Í vetur birtist í 200 mílum, sérblaði Morgunblaðsins um sjávarútveg, myndir af hvalaskoðunarbáum frá Húsavík.
Með fylgdi texti sem ég setti saman um bátana en um var að ræða fiskibáta sem smíðaðir voru á Íslandi en þeir eru ellefu talsins.
Allt eru þetta eikarbátar og eru fyrirtækin þrjú sem gera þá út. Tólfti fiskibáturinn sem er í hvalaskoðunarflotanum á Húsavík er Garðar, áður Sveinbjörn Jakobsson SH 10, sem smíðaður var í Danmörku árið 1963.
Þessir bátar voru smíðaðir í Stykkishólmi, Hafnarfirði, Vestmannaeyjum, Reykjavík og Akureyri þar sem sjö þeirra voru smíðaðir.
Á Akureyri voru það fjórar bátasmiðjur sem smíðuðu bátana, Slippstöðin, Bátaverkstæði Gunnlaugs og Trausta, Bátasmiðjan Vör og Skipasmíðastöð KEA.
Elsti báturinn var smíðaður 1963 og sá yngsti 1977 en 8. áratugurinn var blómaskeið innlendra bátasmíða. Bátarnir frá Akureyri voru allir nema einn smíðaðir fyrir útgerðir við Eyjafjörð og á Húsavík.
Hvalaskoðunarfyrirtækin eru Norðursigling, sem reið á vaðið 1995 þegar Knörrinn hóf siglingar á Skjálfanda, Gentle Giants sem hóf starfsemi árið 2001 og Sölkusiglingar sem byrjaði siglingar vorið 2013.
Næstu daga munu birtast myndir af þessum bátum og textinn um þá.
Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution