
Í dag eru 75 ár síðan afi minn, Hallgrímur Björnsson bóndi í Sultum í Kelduhverfi (þá á Víkingavatni), keypti bátinn Skutul frá Húsavík.
Það var mikið gæfuspor enda fjölskyldan stór og gott að geta dregið björg í bú með því að sækja sjóinn. Flutt var í Sultir árið 1957 en Skutull hafði heimahöfn í Lónunum.
Skutull var opinn súðbyrðingur, 1 brl. að stærð, smíðaður úr furu og eik árið 1940 af Júlíusi Sigfússyni bátasmið á Húsavík. Vél af gerðinni Gauta en seinna fór í bátinn 5 ha. Volvo Penta og síðan 10 ha. Johnson utanborðsmótor.
Þessar heimildir eru af vef Árna Björns Árnasonar, aba.is
Það segir jafnframt:
Skjalfest gögn um að Júlíus hafi smíða bátinn eru ekki fyrir hendi þó að líkur bendi til að svo hafi verið.
Báturinn var smíðaður á Húsavík og hafi Júlíus ekki smíðað hann þá er engum til að dreifa öðrum en Jóhanni Sigvaldasyni.
Smíðaár bátsins er í raun óþekkt en árið 1948 keypti Hallgrímur Björnsson, Sultum bátinn af Sigurði Sigurðssyni ( Sigga stýrsa ) á Húsavík sem þá hafði átt hann í eitt ár.
Hverjir voru eigendur fyrir þann tíma er ekki vitað.
Hallgrímur borðhækkaði bátinn sem var einn af þremur bátum sem áttu heimahöfn á Lóninu í Kelduhverfi og sóttu sjóinn þaðan.
Sigldu þessir bátar um ósinn á milli vatns og sjávar en hann var ekki farinn nema á háflóði. Þegar farið var í róður út á Axarfjörðinn var ekki í höfn komist fyrr en á næsta flóði 12 klukkustundum seinna.
Báturinn endaði vegferð sína í Sandvíkinni á Lóni þegar hann fauk í miklu hvassvirði árið 1978.