
Guðmundur St. Valdimarsson, bátsmaður á varðskipinu Tý, sigraði í ljósmyndakeppni sjómanna á Norðurlöndum.
Þetta er í annað sinn sem Guðmundur sigrar í keppninni. Ljósmyndin sem Guðmundur kallar Gömul vísindi og ný sigraði einnig í ljósmyndakeppni sjómannablaðsins Víkings í fyrra.
Úrslitin voru kunngjörð í dag en Guðmundur vann keppnina einnig fyrir sex árum, fyrstur Íslendinga.
Frá þessu segir á vef Landhelgisgæslunnar sem nýtur góðs af ljósmyndaáhuga Guðmundar en hann hefur tekið myndir af starfsemi Landhelgisgæslunnar í fjölmörg ár.
Vinningsmyndin var tekin þegar áhöfn varðskipsins Týs kom að stórum ísjaka en við það tækifæri rifjaði Thorben Lund, sem var skipherra í ferðinni, upp gömul fræði og staðfesti mælingar á ísjakanum með gamalli aðferð.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.