
Óskar Franz tók á dögunum þessar flottu myndir af Gullberginu VE 292, nýja uppsjávarveiðiskipi Vinnslustöðvarinnar, sem áður hét Gardar H-34-AV.
Á vef VSV segir ma. um skipið:
Gullberg er gríðarlega öflugt skip, smíðað árið 1998 en er mikið endurnýjuð í stóru og smáu, vel búið og glæsilegt í alla staði. Skipið er 71 metri að lengd, 13 metra breitt og lestarrýmið er 2.100 rúmmetrar. Aðalvélin er 8.300 hestöfl og nýleg, sett í skipið árið 2020.
Seljandi skipsins er útgerðarfélagið Gardar AS, dótturfélag rótgróins fjölskyldufyrirtækis á vesturströnd Noregs sem á sér meira en 120 ára sögu og gerði meðal annars út fimm báta til síldveiða við Ísland, fyrst fyrir nákvæmlega einni öld eða árið 1922.
Nýja skipið okkar á sér líka íslenska fortíð og kannast vel við sig á Íslandsmiðum. Það hefur verið skráð hér tvívegis áður, fyrst sem Margrét EA árið 2006, síðan Beitir NK árið 2010 en nú er það orðið Gullberg VE.


Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution