
Harðbakur EA 3, nýtt togskip Útgerðarfélags Akureyringa, kom til heimahafnar á Akureyri laust fyrir klukkan 11 í morgun.
Harðbakur er fimmta skipið í raðsmíðaverkefni sem Vard-skipasmíðastöðin afhendir íslenskum útgerðum á þessu ári. Hin eru Vörður ÞH 44, Áskell ÞH 48, Vestmannaey VE 54 og Bergey VE 144. Tvö síðustu skipin, Steinunn SF 10 og Þinganes SF 25, verða afhent fyrir áramót.
Þessi nýju skip eru 28,95 metrar að lengd og 12 metra breið og mælast 611 BT að stærð. Í skipunum eru tvær aðalvélar með tveimur skrúfum.

Á myndinni hér að ofan eru fv. Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja, Friðrik Karlsson yfirvélstjóri, Hjörtur Valsson skipstjóri, Stefanía Elísabet Hallbjörnsdóttir eiginkona Hjartar og Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja.

Vinnslubúnaður verður settur um borð í Harðbak hjá Slippnum á Akureyri og stefnt að því að skipið hefji veiðar í byrjun næsta árs.
Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution