
Þessar myndir af Snæfugli SU 20 tók ég í ágústmánuði 2003 en skipið hafði verið að taka fisk úr kvíum neðan Víkurskarðs fyrr um daginn.

Upphaflega hét skipið Börkur NK 122 frá Neskaupstað, smíðaður í Noregi árið 1966. Hann átti síðar eftir að heita nokkrum nöfnum áður en honum var breytt í brunnbát í Póllandi árið 2003.
Á mbl.is mátti lesa eftirfarandi frétt 15. apríl það ár:
Snæfugl SU-20 lagði af stað til Neskaupstaðar frá Póllandi á sunnudaginn. Snæfugl hét áður Guðmundur Ólafur II ÓF 40, en skipinu hefur nú verið breytt í brunnbát til flutnings á laxi fyrir Sæsilfur í Mjóafirði. Snæfugl er væntanlegur til Neskaupstaðar á föstudaginn og verður til sýnis laugardaginn 19. apríl, kl. 14.
Miklar breytingar voru gerðar á skipinu í Póllandi, enda var þetta hefðbundið nótaveiðiskip sem nú hefur verið breytt í sérútbúið skip til flutnings á lifandi fiski. Koma Snæfugls markar tímamót í útgerðarsögu Íslendinga þar sem hér er um að ræða fyrsta sérútbúna skipið til flutnings á lifandi fiski sem Íslendingar eignast.

Snæfugl SU 20 var seldur til Noregs árið 2008 og fékk nafnið Sørdyrøy. Hann er enn að sem brunnbátur og kom m.a til Íslands á þessu ári.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution